Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir segir að ef foreldrar láta snjallsímann stjórna samskiptum þegar þeir eru með litlum börnum sínum getur það flokkast sem tegund af vanrækslu. Bandarískar rannsóknir hafa sýnt að símanotkun foreldranna dregur úr samskiptum þeirra við börnin og það getur haft áhrif á hvernig börnin þróa samskiptahæfileika sína.
Vakna til vitundar um áhrif eigin snjallsímanotkunar
Mikið hefur verið rætt um mikla skjánotkun barna og hvaða afleiðingar hún getur haft og hvort eigi að setja börnum reglur eða jafnvel banna þeim að nota síma í skólum eða annars staðar. Mun minna er talað um símanotkun fullorðinna en núna eru foreldrar að vakna til vitundar um það að skjá- og símanotkun fullorðinna eru börnunum fyrirmynd og að þau læra það sem fyrir þeim er haft
Sæunn Kjartansdóttir segir að snjallsímanotkun foreldra sé mjög mikið í deiglunni og að verið sé að rannsaka hana erlendis.
„Ég hef ekkert séð margar rannsóknir um skjánotkun fullorðinna en það sem vakti mig sérstaklega til umhugsunar um þetta er bæði það sem ég sé í kringum mig en svo var ég einmitt stödd á leikskóla þar sem foreldrar vöktu máls á þessu. Þeir höfðu áhyggjur af þessu því þeir áttuðu sig á því að þetta er ekki alveg gott að þeir leiði barnið í annarri hendinni og í hinni er yfirleitt síminn eða oft ef við ýkjum þetta svolítið."
„Mamma er alltaf að horfa á þetta tæki“
Mjög margir fullorðnir séu ofsalega háðir símunum sínum sem minnst eru notaðir til að hringja heldur er mest horft á þá.
„Og það er auðvitað umhugsunarefni hvaða áhrif það hefur sérstaklega á ung börn þegar foreldri er meira og minna með athyglina við tæki sem það heldur á í hendinni. Hvernig upplifir lítið barn það og ég er sérstaklega upptekin auðvitað af litlu börnunum af því þau eru svo ofboðslega þurfandi fyrir athygli. Öll börn eru það auðvitað en alveg sérstaklega lítil börn þau þrífast og nærast á athygli."
Þetta þýði ekki að foreldrar megi aldrei líta af litlu börnunum eða gera neitt annað heldur sé það mjög sérkennilegt fyrir lítið barn að venjast því að athygli foreldranna sé meira og minna á einhverju öðru en þeim.
„Það er mjög sérkennilegt fyrir það og ég tala nú ekki um ef maður setur sig í stöðu barnsins. „Mamma er þarna eða pabbi. Þau eru ekki að horfa á mig. Þau eru að horfa á eitthvað sem ég veit ekki hvað er. Það er ekki andlit en þau eru alltaf að sýna svipbrigði við eitthverju sem ég veit ekkert hvað er. Ég fæ engan sans í þetta." Rannsóknir hafa sýnt það - ekki rannsóknir á símum heldur rannsóknir á tengslum foreldra og barna að ef foreldri er algerlega svipbrigðalaust framan í barnið sitt eða ef það sýnir mjög óviðeigandi viðbrögð, til dæmis hlær upp úr þurru eða verður ofsalega reitt á svipin án þess að barnið eigi von á því það hefur mjög truflandi áhrif. Og maður getur alveg ímyndað sér að foreldri sem er að horfa mjög mikið í símann sinn, það sýnir alls konar sviprigði sem eru algerlega úr lausu lofti gripin fyrir þettta litla barn." Sæunn segir að þetta eigi við um lítil börn alveg frá fæðingu.
Mæður í símanum á meðan þær gefa brjóst
Mæður eru mest með barnið í fanginu fyrsta árið sérstaklega ef það er á brjósti. Það er mjög algengt að síminn sé við hliðina á þeim.
„Þeim leiðist. Barnið er lengi að drekka. Þetta er ekki alltaf ofsalega stímulerandi og þá er nátturlega mjög freistandi að grípa í eitthvað og dreifa huganum sem er allt í góðu upp að vissu marki. Ég held að lykillinn að þessu sé að gæta einhverrar hófsemi. Og ég held að það verði að segjast eins og er að við sem samfélag við kunnum ekki að umgangast þetta nýja dót okkar."
Snjallsímar draga úr samskiptum
Sæunn bendir á tvær nýlegar rannsóknir á áhrifum snjallsímanotkunar foreldra á börnin og samskipti þeirra og foreldranna. Fylgst var með foreldrum og börnum á veitingastað og síminn var yfirleitt alltaf á borðinu. Í 70% tilvika gripu foreldrar í símann og það hafði marktæk áhrif á gæði samskiptanna.
„Bæði þá voru foreldrarnir náttúrlega víðsfjærri með hugann og þeir eru ekki eins vakandi fyrir barninu. Börnin þurfa að hafa meira fyrir því að ná athygli þeirra og fyrir vikið verða börnin miklu meira krefjandi eða þau náttúrlega geta líka gert hitt þau bara hætta að leita til foreldranna."
Rannsóknir hafa sýnt, á öðrum sviðum og það er líka heilbrigð skynsemi sem segir fólki að foreldrar eru fyrirmyndir barnanna. Þannig læri börnin það sem fyrir þeim er haft. „Þannig læra börnin til dæmis „ef eitthvað er þá grípur maður bara í þetta tæki þarna." Það er auðvitað það sem þau tileinka sér svo seinna og þau þurfa oft að fá hjálp til þess hjá foreldrunum því oft eru foreldrarnir mjög fljótir að rétta börnunum sínum símann eða ipad-inn ef eitthvað er bæði til þess að hafa ofanaf fyrir þeim en lika til þess að róa þau."
Verður að vera innan skynsamlegra marka
Sæunn segir að það séu alltaf foreldrarnir sem leggi línuna bæði með eigin notkun og notkun barnanna. Auðvitað sé það í lagi að börnin fái stundum að horfa á eitthvað í síma eða ipad-i.
„En lykillinn er að þetta sé innan einhverra skynsamlegra marka. Og það fer mjög mikið eftir aldri barnanna hvað þau þola mikið" Yngstu börnin ættu ekki að verja miklum tíma í þessum tækjum og alltaf með fullorðnum.
Hvaða afleiðingar getur símanotkun foreldra haft á samskiptahæfileika barnsins?
Sæunn segir að það skipti öllu máli hvað barnið fær mikið af beinum tjáskiptum og öðrum leik en þeim sem eru á skjám. Í einni rannsókn voru áhrif ýmissa leikja barna og foreldra borin saman. Annars vegar voru foreldrar að leika með börnum í hefðbundnum leik til dæmis með legó, púsl, spila eða þeir lásu fyrir þau og hins vegar voru börn og foreldrar að skoða ipad eða síma.
„Það sem kom í ljós að þegar börnin voru að horfa á skjá þá ýttu þau foreldrunum meira frá sér til að fá að vera í friði, foreldrarnir trufluðu. Aftur á móti þegar verið var að lesa fyrir þau, leika á þessum hefðbundnu nótum þá sækja þau í nálægðina þá vilja þau deila meira með og fá þessa snertingu."
Ákveðin vanræksla ef foreldrar eru alltaf í símanum
Þannig skipti öllu máli hvernig samskipti barna og foreldra eru. Ef þau eru ríkuleg og barnið fær fulla athygli og svörun með andlitstjáningu, látbraðgi og líkamlegri nálægð þá eru þau í ágætum málum. „En ef þetta yfirtekur það og þetta verður á kostnað þess að foreldrar leiki við barnið á annan hátt, lesi fyrir það, tali við það, þá hefur það áhrif á samskipahæfnina. Því að þú þarft svörun lífandi manneskju á sjálfan þig til að þekkja sjálfan þig og til þess að upplifa vellíðan og til að læra á annað fólk. Þú getur ekki gert það í gegnum skjá. Skjár veitir þér aldrei þá svörun sem annað fólk getur gefið þér."
Væri það þá einhvers konar vanræksla? „Þetta getur verið ein tegund af vanrækslu […]. Ef við lítum á þetta sem ákveðna vanrækslu þá hefur þetta sömu afleiðingar og önnur vanræksla. Ef foreldrið sinnir skjánum meira en barninu sínu þá er það vanræksla og það getur haft þau áhrif að barnið verður miklu miklu meira krefjandi heldur en annars eða það hættir að leita að tengslum við foreldri sitt, bara lærir að bjarga sér sjálft löngu áður en það hefur færni eða getu til þess."
Vantar reglur um skjáfría tíma á heimilum
Sæunn segir að foreldrar og fólk almennt viti að þetta er ekki nógu gott. Það hafi komið í ljós hjá þeim foreldrum sem hún talaði við á leikskóla. „Og mér fannst foreldrar þarna vera að kalla eftir því að við myndum setja þetta á dagskrá og hjálpast að við að búa til einhverjar reglur í sambandi við þetta. Ég held að það sé mjög gagnlegt til dæmis að á hverju heimili sé ákveðinn skjáfrír tími. Og ég myndi leggja til til dæmis frá því barnið kemur heim úr leikskólanum, ef við erum að tala um svona ung börn, og þangað til þau eru sofnuð."
Það sé ákveðin taugaveiklun hjá foreldrunum eða fullorðnu fólki að halda að þau verði alltaf að vera sítengd og að þau séu alltaf að missa af einhverju alveg stórkostlegu þarna úti ef þau svara ekki í símann. „Á meðan það merkilegasta sem er að gerast er inn á heimilinu þeirra beint fyrir framan augun á þeim. Þau átta sig kannski ekki á því ef við tökum ekki þessa umræðu fyrr en það er orðið allt of seint."
Töluvert hefur verið fjallað um þetta erlendis en hvað á að gera hér á landi, rannsaka eða gefa út leiðbeiningar fyrir foreldra?
„Ég er ekkert viss um að það þurfi að rannsaka þetta neitt svo rosalega mikið. En ég held að við þurfum að tala um þetta og setja okkur einhverjar umgengnisreglur við þessa nýju tækni að hún yfirtaki ekki algerlega líf okkar og skyggi á það sem skiptir mestu mál fyrir börn sem er þetta líkamlega samband barns og foreldris."