Efnahags-, skatta- og atvinnumálanefnd miðstjórnar Alþýðusambandsins leggur til að tekið verði upp fjögurra þrepa skattkerfi í stað tveggja eins og nú er. Miðað er við að skatttekjur ríkisins verði eftir sem áður þær sömu. Horfið er frá kröfunni um að lægstu laun verði skattfrjáls. Forsætisráðherra upplýsti á Alþingi í dag að von væri á tillögum ríkisstjórnarinnar um skattkerfisbreytingar sem myndu gagnast þeim tekjulægstu.
Tillögur nefndarinnar verða lagðar fram á fundi miðstjórnar ASÍ á miðvikudaginn. Með þeim er sleginn aðeins annar tónn en í kröfugerðum félaga innan ASÍ gagnvart stjórnvöldum. Í kröfugerð VR er gert ráð fyrir því að persónuafsláttur verði hækkaður þannig að lágmarkslaun verði skattfrjáls. Persónuafslátturinn verði breytilegur og lækki með hækkandi tekjum. Meginhugsunin er að lækkun skatts á lág- og millitekjur verði meðal annars fjármögnuð með hækkun á sköttum þeirra tekjuhæstu. Kröfur Starfsgreinasambandsins eru nær samhljóða.
Spurning um viðbrögð stjórnvalda
Það er ekki víst að krafan um fjögurra þrepa skattkerfi fái hljómgrunn innan ríkisstjórnarinnar. 2010 var tekið upp þriggja þrepa kerfi en frá 2017 hafa þrepin verið tvö, tæplega 37% tekjuskattur og útsvar á tekjur undir 927 þúsund krónum á mánuði og rúmlega 46% skattur á tekjur hærri en 927 þúsund. Stefna stjórnvalda hefur verið að einfalda skattkerfið.
Horfið frá tillögum um hækkun persónuafsláttar
Skattanefnd ASÍ sækir fyrirmyndina að fjögurra þrepa skattkerfi til annarra Norðurlanda. Lagt er til að bætt verði við lægra skattþrepi. Samkvæmt heimildum Spegilsins gæti það verið í kringum 33 prósent með útsvari. Síðan kæmu tvö þrep og loks hátekjuskattsþrep sem gæti verið í kringum 55%. Með þessu er horfið frá kröfunni um að persónuafslátturinn verði hækkaður þannig að lægstu tekjur verið skattfrjálsar. Þó er gerð krafa um að hann verði hækkaður en ekki farin sú leið að hann lækki í takt við hærri tekjur. Miðað er við að tekjur ríkisins verði áfram þær sömu. Þeir með lægstu tekjurnar greiði minna og þeir með þær hæstu greiði meira.
Skattbyrði aukist hjá þeim tekjulægstu
Tillögur skattanefndar ASÍ eru lagðar fram með hliðsjón af skýrslu sem ASÍ gerði um breytingar á skattbyrði launafólks og bar yfirskriftina Skattbyrði launafólks 1998-2016. Meginniðurstaðan var að heildarskattbyrði launafólks að teknu tilliti til tekjuskatts, útsvars og persónuafsláttar auk barna- og vaxtabóta hefði aukist í öllum tekjuhópum á þessu tímabili. Aukningin væri langmest hjá þeim tekjulægstu. Þessi niðurstaða byggðist meðal annars á því að persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun og skattbyrði þar með aukist mest á lægri laun. Einnig að stuðningur vaxtabótakerfisins hefur minnkað verulega á tímabilinu og þar með fækkað í þeim hópi sem fær greiddar vaxtabætur. Þá sé barnabótakerfið veikt. Það dragi eingöngu úr skattbyrði einstæðra foreldra og allra tekjulægstu para. Sömu sögu sé segja af húsaleigubótakerfinu. Það hafi þróast eins og önnur bótakerfi. Dregið hafi úr stuðningi við launafólk á leigumarkaði.
Ríkisstjórnin boðar skattkerfisbreytingar
Það á eftir að koma í ljóst hvort tillögur skattanefndar ASÍ verða samþykktar í miðstjórn. Tilgangurinn er að móta ákveðna stefnu og að verkalýðshreyfingin tali einum rómi þegar viðræður við stjórnvöld hefjast um skattamálin. Það á líka eftir að koma í ljós hver viðbrögð stjórnvalda verða. Hins vegar verða kynntar tillögur í húsnæðismálum sem unnar voru af nefnd sem skipuð var bæði fulltrúum stjórnvalda og vinnumarkaðarins. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra vék nokkrum orðum að tillögum nefndarinnnar á Alþingi í dag. Hún sagði líka að von væri á tillögum stjórnvalda í skattamálum.
„Á næstunni munu stjórnvöld kynna tillögur sínar að skattkerfisbreytingum. Í tengslum við kjarasamninga fyrir tæpu ári boðaði ríkisstjórnin að þær breytingar sem gerðar yrðu á tekjuskattkerfinu mundu miða að því að koma til móts við tekjulægri hópa og lægri millitekjuhópa. Ég bind miklar vonir við að þær tillögur sem við munum sjá á næstunni, bæði hvað varðar skattkerfið og húsnæðismál, muni greiða fyrir því að lenda kjarasamningum með farsælum hætti á vinnumarkaði,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.