Ekki voru ákvæði um undanþágu frá starfsleyfi í lögum um fiskeldi, líkt og í lögum um ýmsar aðrar atvinnugreinar. Fyrirtækin eiga að njóta reglunnar um meðalhóf, að sögn Katrínar Jakobsdóttur. Frumvarp sjávarútvegsráðherra um tímabundna undanþágu frá starfsleyfi var samþykkt af Alþingi í vikunni. Forsætisráðherra segir mikilvægt að hlusta á ráðleggingar vísindamanna enda sé laxinn ekki aðeins fyrir veiðimenn. Málið snúist um líffræðilega fjölbreytni og hættu á blöndun.
Náttúruverndarsamtök og nokkrir veiðiréttarhafar kærðu veitingu leyfa frá Umhverfis- og Skipulagsstofnun til tveggja laxeldisfyrirtækja vegna sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði. Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál komst að þeirri niðurstöðu að fella leyfin úr gildi þar sem ekki var fjallað um kosti landeldis, geldfisk og lokaðar kvíar í umhverfismati.
Fyrirtækin fóru af stað í góðri trú
Forsætisráðherra segir að fyrirtækin hafi farið að stað með starfsemi sína í góðri trú enda með leyfi frá opinberum stofnunum. Það hafi átt að vera fyrirséð að farið gæti svona þar sem lög um fiskeldi kveða ekki á um að veita megi undanþágu þegar staða sem þessi kemur upp. „Ef fara hefði átt að lögum hefði átt að loka fyrirtækjunum á sömu stundu og slátra þeim fiski sem þá var í kvíum, eftir að fyrirtækin hafa fengið leyfi frá opinberum stofnunum, sem svo er bara kært og ekkert að því. Úrskurður fellur, þá eiga væntanlega fyrirtækin að njóta meginreglunnar um meðalhóf,“ sagði Katrín í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Segir umhverfisvá ekki hafa verið yfirvofandi
Úskurður nefndarinnar snýst ekki um það hvort náttúran eigi að njóta vafans eða ekki, að mati Katrínar, heldur um það að umhverfismatið hafi formlega séð ekki verið gert með réttum hætti. Ekki sé nein umhverfisvá fyrir dyrum sem hafi orðið til þess að úrskurðurinn fór á þennan veg. „Þetta er tæknilegt og þá þurfa stjórnvöld að geta brugðist við og lagt eitthvert mat á það. Við þekkjum dæmi þar sem við vorum hreinlega að horfa á umhverfisvá þar sem verksmiðjur voru hreinlega að menga umhverfi sitt, svo dæmi sé tekið.“ Þessi tvö mál séu annars eðlis.
Ljóst er að skoða þarf kosti og galla sjókvíaeldis mjög vel, að dómi Katrínar. „Laxastofninn er ekki aðeins fyrir veiðimenn. Við erum að tala um líffræðilega fjölbreytni og hættuna á að ógna henni ef það verður blöndun.“ Hún segir mikilvægt að hlusta eftir ráðleggingum vísindamanna í þessum efnum.
Skiptar skoðanir innan Vinstri grænna líkt og víðar
Er þinn flokkur fylgjandi því að það sé sjókvíaeldi. Það er verið að tala um að það sé alls konar mengun af þessu og þetta geti líka skemmt íslenska laxastofna? „Mér finnst að við eigum ekki að rugla þessu máli saman við afstöðuna til fiskeldis. Við erum að horfa á það að atvinnugreinar njóti ákveðins jafnvægis. Þegar kemur að fiskeldi eru auðvitað skiptar skoðanir í mínum flokki eins og fleirum á Alþingi á fiskeldi. Við skrifuðum undir stjórnarsáttmála þar sem við töluðum um að það eigi að byggja upp þessa atvinnugrein af ítrustu varúð hvað varðar umhverfissjónarmið. Þess vegna er í undirbúningi heildarendurskoðun á fiskeldislögunum og auðvitað hefði verið gott ef hún hefði verið tilbúin þegar þetta kom fram.“