Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar og formaður Borgarráðs, segir umferðarþunga í Reykjavík vera á borði Borgarráðs. Breytt skipulag á vegum, efling strætó og borgarlínu og aukinn fjöldi hjólandi vegfaranda sé meðal þess sem slái á vandann.

Nú eru skólarnir byrjaðir aftur, sumarfríi lokið og umferð tekin að þyngjast. Þórdís Lóa ræddi umferðarþungann í borginni í Morgunútvarpinu á Rás2 í morgun. Hún segir lausnina felast í fjölbreyttum samgöngum en tekur fram að umferðarþunginn sé langtímavandi sem ekki verði leystur með skammtímalausnum.

Þórdís Lóa segir eðlilegt að umferð þyngist á þessum tíma árs vegna ferðalaga í og úr vinnu og skóla og framkvæmda sem víða hægi á umferð. Vandinn liggi í því að fólk keyri sömu leið í og úr vinnu á degi hverjum. Þar komi þétting byggðar til með að bæta stöðuna. „Þannig að atvinnulífið sé ekki bara allt á einum stað, þannig að allir séu í einhverri rennu, það renna allir á sama stað og svo renna allir á sama stað til baka seinni partinn. Þetta þarf að stokka upp og það gerist í skrefum.“

Hún segir breytingar á skólakerfinu nauðsynlegar. „Bara það að taka skólakerfið þannig að það sé samfelldara, þannig að við séum ekki svona mikið að skutla og sækja. Það hefur áhrif, ekki bara á 500 manns, það hefur áhrif á tugþúsundir manns og það skapar ákveðinn létti í umferðinni. Þessi ferðalög á okkur inni í borginni á morgnana og yfir daginn, þau skapa umferðarþunga.“

Fjölbreyttari samgöngur eru lykillinn að minni umferð að mati Þórdísar Lóu. Breyta þurfi skipulagi á götum í borginni og leggja áherslu á eflingu strætó og borgarlínu. Hún segir fagnaðarefni að hjólandi vegfarendum fjölgi og að markmiðum Reykjavíkurborgar fyrir árið 2030 hafi nú þegar verið náð.

„Við erum núna í mikilli vinnu að undirbúa hina víðfrægu borgarlínu og við erum líka í miklum undirbúningi að skoða frekar að nota stokka. Það er alveg vitað mál að borgir eru hættar með þessi risa mislægu gatnamót, sem var kannski sagan fyrir 15-20 árum síðan. Þannig að lausnirnar í dag eru allt aðrar en þetta snýst fyrst og síðast um fjölbreyttar samgöngur og þangað ætlum við og verðum við að fara með öllum ráðum, “ segir Þórdís Lóa.