Í Gerðarsafni í Kópavogi leiðir nú tónlistar- og myndlistarmaðurinn Curver Thoroddsen hljóðlistasmiðju fyrir 10-14 ára börn meðan vetrarfrí er í grunnskólum.
„Ég kem með fullt af hljómborðum sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina, og einfalt hljóðupptökuforrit til að taka upp lögin sem þau eru að skapa,“ segir Curver í samtali við Síðdegisútvarpið. „Það er í raun bara ein regla í þessu, að það má ekki spila lög eftir aðra, maður þarf að búa til sín eigin lög.“ Hann segir krakkana oft feimna til að byrja með, „en um leið og það er búið að taka upp eina hugmynd að lagi, þá bara opnast flóðgáttirnar.“ Hann segir smiðjurnar ekki síst gerðar til að fá krakka sem eru að æfa á hljóðfæri (eða þá sem ekki eru að æfa) til að skapa með hljóðfærunum.
„Það virðist vera fast í fólki að maður þurfi að kunna rosalega vel á hljóðfæri áður en maður fer að skapa sína eigin tónlist,“ segir Curver, sem telur það kolranga nálgun og tekur dæmi úr öðrum miðli: „Hér eru fullt af teikningum. Það mundi engum myndlistarkennara detta í hug að banna barni að teikna mynd af húsi því það væri ekki nógu raunverulegt.“ Curver segir sjá mikinn efnivið í krökkunum, til að mynda Friðriku sem var nýbúin að semja lag þegar Síðdegisútvarpið bar að garði. „Það heitir „Láttu mig í friði mig langar að vera ein“,“ segir Friðrika og bæti við að það hafi vakið mikla kátínu hjá Curver. „Mér fannst það vera svo mikill pönkaratitill,“ skýtur Curver inn í. „Mjög svona rokk og ról.“
Andri Freyr Viðarsson ræddi við Curver Thoroddsen í Síðdegisútvarpinu þar sem líka má heyra tóndæmi úr verkum barnanna.