Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, telur að á næstu árum sjáist árangur af uppbyggingu náttúruperla sem eru í hættu vegna ágangs. Ríkisstjórnin hafi bætt við fjórum milljörðum á fjórum árum í þennan málaflokk og aukið við landvörslu.

 

Fimm náttúruperlur eru á rauðum lista Umhverfisstofnunar, og því í verulegri hættu. Þrjár þeirra eru ekki friðlýstar. Guðmundur segir að hægt væri að friðlýsa þau til þess að auka fjármagn inn til þeirra og landvörslu. „Þetta stendur til og sum þessara svæða sem eru þarna í hvað mestri hættu og ófriðlýst eru nú þegar í friðlýsingarferli. Það er Látrabjarg, gjáin í Þjórsárdal, Kerlingafjallasvæðið og Geysir.“

Heldurðu að þú komir þessu í gegn í þessari ríkisstjórn? „Það ætla ég rétt að vona,“ svaraði Guðmundur. 

Sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun sagði í fréttum í dag að aldrei hafi þurft að grípa til aðgerða á jafn mörgum stöðum. Guðmundur segir að horfa þurfi til þess að fleiri svæði séu undir en áður. „En ég vil fullyrða það að það er búið að taka mjög fast á þessum málum núna. Þau eru komin í mjög góðan farveg. Það er komið aukið fjármagn bæði til innviðauppbyggingarinnar og landvörslunnar. Þannig að ég held að við munum sjá á næstu árum mikinn árangur á þessu sviði. Ég er þess fullviss og bjartsýnn,“ sagði Guðmundur í viðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum.