Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, segir að það sé langur listi af fólki sem hann þurfi að biðja afsökunar eftir að fjölmiðlar birtu hljóðupptöku með ummælum hans og þingmönnum flokks fólksins. „Af hverju er maður að segja svona hluti þegar maður er í svona ásigkomulagi. Það er bara eitthvað í kollinum á manni sjálfum sem maður þarf að skoða það er bara þannig,“ segir Gunnar Bragi í Morgunútvarpinu á Rás2. Hann segir að hann hafi sagt ósatt í upptökunni.
Í hljóðupptökunni kemur fram að Gunnar Bragi hafi í utanríkisráðherratíð sinni skipað Árna Þór Sigurðsson, þá þingmann Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem sendiherra árið 2014 um leið og Geir H. Haarde, gagngert til að leiða athyglina og umræðuna frá skipun Geirs.
„Það hafði staðið til lengur að skipa Árna Þór Sigurðsson sem sendiherra heldur en Geir. Það kemur upp eftir ákveðin samtöl og auðvitað er það bara þannig að það er ákveðinn þrýstingu í Sjálfstæðisflokknum að skipa hann. Ég sjálfur er þeirrar skoðunar að það ætti að skipa hann. Geir er afburðamaður,“ segir Gunnar Bragi í Morgunútvarpinu á Rás2.
Áttu inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum? „Ætli það væri ekki búið að borga hann ef það væri. Ég er bara ekkert að segja satt þarna að þetta væri einhver díll. Ég get ekki svarað af hverju ég sagði það,“ bætir Gunnar Bragi við. „Ég hefði alveg getað skipað þá í sitthvoru lagi. Ég hefði getað skipað þrjá eða fjóra, og reynt að fela Geir alveg, ef það var hugsunin. Ég verð alveg að viðurkenna það að hugsunin var svolítið sú það myndi draga úr neikvæðri umfjöllun um skipan Geirs, sem ég vissi að yrði og varð vitanlega ef þetta yrði gert með þessum hætti. Þetta snérist ekki um það að skipa Árna út af Geir heldur voru báðir mennirnir mjög hæfir.“
Hann segir að þingmenn geri mistök eins og annað fólk. „Auðvitað segjum við af okkur ef við brjótum af okkur. Ef við gerum eitthvað sem er gegn þjóðarhag. Þetta er ekki svoleiðis. Þarna erum við í einhverju partýi að tala óvarlega og illa,“ segir Gunnar Bragi.
Gunnar Bragi lét meðal annars falla ummæli um þingkonur. Hann segir að það sé þeirra að meta það hvort hann á afturkvæmt í samstarf við þær. „Það er þeirra að meta það. Hvort að þau taka við minni afsökunarbeiðni,“ segir Gunnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.