Réttarhöld í Madríd yfir 12 fyrrverandi forystumönnum í Katalóníu, sem ákærðir eru vegna framgöngu þeirra í tengslum við atkvæðagreiðsluna um sjálfstæði Katalóníu 2017, hafa vakið mikla athygli. Yfirvöld á Spáni líkja þeim tilburðum við uppreisn - brot gegn ríkisheildinni. Verði Katalónarnir fundnir sekir gætu þeir átt yfir höfði sér langa fangelsisdóma. Níu þeirra hafa verið í varðhaldi í um ár og hefur sú ráðstöfun vakið hörð viðbrögð á alþjóðavettvangi.
Meðal þeirra stjórnmálamanna sem kynnt hafa sér málið er Rósa Björk Brynjólfsdóttir, alþingismaður, einn varaforseta Evrópuþingsráðsins. Hún sagði frá á Morgunvaktinni á Rás 1, þar sem hún var fyrst spurð hvort hún teldi að katalónsku sjálfstæðissinnarnir hefðu fengið réttláta meðferð hjá spænskum yfirvöldum: „Það er ekki hægt að saka spænsk stjórnvöld um harðræði - en það að hafa fólk á bak við lás og slá í 12 til 14 mánuði, án þess að dæmt hafi verið í þeirra máli, er eiginlega með ólíkindum. Margir myndu segja að það væri ekki eitthvað sem lýðræðisríki ætti að iðka alla jafnan.“ Ákærurnar lúta að uppreisn gegn ríkinu, beitingu ofbeldis og að misfarið hafi verið mé fé í nafni sjálfstæðisbaráttu Katalóna. Rósa Björk vakti athygli á því að það væru þrír aðilar sem krefðust refsingar: spænska ríkið, saksóknari og hægri öfgaflokkurinn Vox: „Það hljómar undarlega fyrir okkur að pólitískum flokki sé hleypt jafnhliða inn í Hæstarétt Spánar til þess að krefjast refsingar yfir þessu fólki. Það er einmitt Vox sem krefst hörðustu refsingarinnar, 74 til 75 ára fangelsis.“