Hugsanlega hefði það orðið jafnstórt verkefni, að breyta stórhýsi í Kópavogi í hjúkrunarheimili, og að byggja slíkt heimili frá grunni. Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Ábyrgð stjórnvalda á löngum biðlistum í heilbrigðiskerfinu sé uppsöfnuð til mjög langs tíma.
Stjórnvöld hafa hafnað því að breyta stórhýsi við Urðarhvarf í Kópavogi í hjúkrunarheimili þrátt fyrir að það standi tómt og að forstjóri Hrafnistu telji að mun fljótlegra yrði að breyta því en að smíða nýtt. Þetta kom fram í fréttum í gær. Í minnisblaði sem landlæknir sendi heilbrigðisráðherra í vikunni kemur fram að öryggi sjúklinga á Landspítalanum sé ógnað því ekki sé hægt að útskrifa eldra fólk af spítalanum vegna skorts á hjúkrunarrýmum.
En hvers vegna vildu stjórnvöld ekki breyta byggingunni við Urðarhvarf?
„Fyrst og fremst vegna þess að þarna er um að ræða hús sem er ekki fullbúið og í öðru lagi vegna þess að þetta er hannað sem skrifstofuhúsnæði og ég held að viðkomandi viti það nú alveg að hjúkrunarrými eru sérhæfðar byggingar sem gera þá kröfu að það sé verulegur undirbúningur alveg frá fyrsta degi,“ svarar Svandís. „Þarna er ekki um slíkt að ræða þannig að ég held að við höldum okkar striki í því að byggja upp hjúkrunarrými sem eru hugsuð sem slík frá byrjun.“
En hefði ekki verið hægt að breyta þessari byggingu í hjúkrunarheimili?
„Það kann að vera en það en það hefði kannski orðið jafnmikið verkefni eins og að byrja frá grunni.“
Er það rangt hjá forstjóra Hrafnistu að þetta tæki styttri tíma en að byggja nýtt heimili?
„Ég geri ráð fyrir því já,“ svarar Svandís. „Við erum með allmörg hjúkrunarrými í pípunum akkúrat núna, það eru 14 verkefni sem eru mislangt komin og á næsta ári, árinu 2019, þá erum við að tala um á annað hundrað rýma, og þau eru öll hugsuð frá byrjun sem hjúkrunarrými og við eigum að gæta að fagmennsku í þessum efnum eins og öðrum.“
„Allt saman í góðum gangi“
Í minnisblaði landlæknis kemur einnig fram að dæmi séu um að sjúklingar hafi þurft að bíða í 66 klukkustundir á bráðamóttöku Landspítalans, og að biðtími eftir innlögn hafi lengst um 40 prósent á einu ári.
Þetta er sá tími sem þú hefur verið heilbrigðisráðherra - hvað finnst þér um að þetta hafi gerst á þinni vakt?
„Það er um það bil einfaldasti hlutur í heimi að halda því fram að það snúist um það hver er ráðherra á hverjum tíma,“ svarar Svandís. „Því þetta er eitt af þessum verkefnum sem bíður mín þegar ég tek við sem heilbrigðisráðherra. Það eru þessi viðfangsefni. Það er að segja í fyrsta lagi að byggja upp hjúkrunarrými, og í öðru lagi að horfast í augu við vandann sem mönnun í hjúkrun er. Þessi verkefni eru á meðal þeirra stærstu sem ég kem að þegar ég verð ráðherra fyrir einu ári og það er slagkraftur í báðum þessum verkefnum.“
En eru ekki mikil vonbrigði að biðlistinn hafi lengst svona mikið?
„Jú það er það. Og hvetur mann áfram til þess að halda þessu ofarlega á dagskrá sem hefur verið það frá degi eitt þegar ég kom til starfa og ég held að það hljóti að vera hverjum manni ánægjuefni að það er ráðherra sem tekur mark á þessum varnaðarorðum.“
En er ekki ljóst að ábyrgð þín er töluverð?
„Ábyrgð stjórnvalda er uppsöfnuð til mjög langs tíma og ég byggi ekki hjúkrunarrými þó ég láti ýmislegt af mér leiða á stuttum tíma, þá geri ég það ekki á nokkrum vikum eða einu ári. En þetta er allt saman í góðum gangi og ég hef verið að bæta verulega í á mínum tíma,“ segir Svandís.