Heiðlóan, landslagsmyndir og regnbogapappír er meðal þess sem einkennir nýju íslensku vegabréfin sem tekin voru í notkun í byrjun febrúar. Útvarpsþátturinn Víðsjá fór í vettvangsferð í Þjóðskrá til að skoða nýju vegabréfin.

Undirbúningsvinna við útboð og hönnun vegabréfanna hefur tekið fjögur ár og stofnkostnaðurinn um 200 milljónir króna. Nýju vegabréfin verða öruggari í útgáfu en eldri gerð og breytist útlit þeirra nokkuð, en það er pólskt fyrirtæki PWPW sem sér um hönnunina í samstarfi við Þjóðskrá. „Á fyrstu opnunni er ný mynd af málverki sem sýnir Ingólf Arnarson og öndvegissúlurnar með Esju í bakgrunn, þetta er mynd eftir norskan málara sem þótti falleg og eiga við,“ útskýrir Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár.

„En það sem er einkennandi í vegabréfinu er að nú höfum við landslagsljósmyndir frá öllum landshlutum á Íslandi. Þær eru teknar af ýmsum atvinnuljósmyndurum,“ segir hún.

„Svo birtast á hverri blaðsíðu heiðlóur. Þær byrja að koma inn á vinstri blaðsíðuna í upphafi bókar og það er eins og þær séu að fljúga í gegnum blaðsíðurnar. Í lok bókarinnar eru þær komnar á endann á hægri blaðsíðuna.“

Fjallað var um nýju vegabréfin í Víðsjá á Rás 1.