„Það er ekki fyrr en á líður myndina að fólk gerir sér grein fyrir því að þetta er allt saman tilbúningur. Skáldskapur,“ segir Gústav Geir Bollason, myndlistarmaður og höfundur kvikmyndaverksins Carcasse. Myndin var á haustmánuðum sýnd í fyrsta sinn í listasafni hérlendis, í Listasafninu á Akureyri.

Carcasse vann Gústav Geir í samstarfi við listamanninn Clémentine Roy og þó söguþráður sé fjarri og efnistök óljós og draumkennd má segja að hún fjalli um viðleitni fólks til að byggja eitthvað úr engu. „Hún fylgir svolítið árstíðum og verkefnum bóndans og hvernig fólk sem sagt byggir landið. Það má segja að þetta sé landslagsfrásögn, landslag sem byggir á ákveðinni tilgátu um hvernig er hægt að aðlaga sig umhverfi og byggja aftur upp úr rústum. En á sama tíma gæti þetta líka bara verið svona eitthvað sem er til á jaðri eða utan alfaraleiðar. Eitthvað sem er til hliðar við samtímann,“ segir Gústav Geir. 

Myndin er tekin á Norðausturlandi; Langanesi, Sauðanesi, Bárðadal, Svartárvatn og inni í Þorvaldsdal. Hún var frumsýnd í fyrra á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Rotterdam og síðan sýnd á Stockfish í Reykjavík. Hún hefur síðan verið sýnd víða á hátíðum og í myndlistargalleríum og komið við í Pétursborg, Montreal, Berlín og San Fransisco.

Leikarar í eigin persónu

Segja mætti að Carcasse dvelji á mörkum myndlistar og kvikmynda en ber líka einkenni vísindaskáldsögu og mannfræðirannsókna. „Hún hefur stundum verið fram sett sem heilmildamynd en er í raun algjör skáldskapur þannig að hún er á svona óljósum mörkum þar. Það felst kannski svolítið í áferðinni og því hvernig hún er tekin. Þau sem koma fyrir í henni eru þannig séð leikarar en þau eru ekki í neinum eiginlegum hlutverkum, þau eru í eigin persónu.“ 

Gústav Geir hyggst halda áfram að vinna með kvikmyndamiðilinn, auk annarra listforma. „Ég er mikið að kvikmynda núna. Það verður allavega fyrst hugsað sem innsetningarverk og þá með öðru efni og hlutum, efnislegri hlutum: teikningum og skúlptúrum. Þannig að ég er á svipuðu róli, það er ekki mjög ólíkt viðfangsefni þannig séð.“

Nánari upplýsingar um Carcasse má finna hér