Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, umhverfisheimspekingur, flytur sinn fjórða pistil í pistlaseríu sinni um landslag og fegurð. Þegar ákvarðanir um nýtingu náttúru hefur mikil áhrif á tilveru okkar, sjálfsvitund og jafnvel þjóðarvitund, þá er það óþægileg tilfinning að fá engu um það ráðið hvað verður segir hún.


Guðbjörg R. Jóhannesdóttir skrifar:

Í síðasta pistli fjallaði ég um hvernig við erum sem líkamlegar tengslaverur órjúfanlega tengd því landslagi sem er okkar „heima” og hvernig við þurfum að taka tillit til þess þegar við tökum ákvarðanir um þróun og breytingar á landslagi. Það sem birtist kannski sterkast í Kárahnjúkadeilunni víðfrægu og hefur síðan birst aftur og aftur í deilum okkar um nýtingu náttúrusvæða, er hversu mikilvægt fagurferðilegt gildi landslags er okkur Í. Kárahnjúkadeilunni bentu andstæðingar virkjunar á þá ómetanlegu og einstöku fegurð sem landslag hálendisins býr yfir, meðal annars með því að birta ljósmyndir af svæðinu sem yrði sökkt og bjóða upp á gönguferðir um svæðið svo fleiri gætu upplifað þessa fegurð og tengst landinu beint. En auðvitað benti þetta baráttufólk líka á neikvæðar vistfræðilegar og efnahagslegar afleiðingar fyrirhugaðra framkvæmda því það gerði sér grein fyrir því að þau rök sem byggðu á tilvísun í fagurferðilegt gildi voru stimpluð út af borðinu sem tilfinningarök og aldrei tekin til alvarlegrar umræðu á þeim tíma. Staðreyndin er sú að það sem var áður stimplað út af borðinu sem ómerk tilfinningarök er einmitt það sem virðist skipta almenning mestu máli. Jafnvel þó gildi landslags sé líklega eitt af mikilvægustu gildum íslenskrar náttúru hefur landslagshugtakið hingað til ekki leikið mjög stórt hlutverk í náttúruvernd á Íslandi. Margir staðir, sem búa yfir einstöku landslagi og náttúrufegurð, hafa kannski ekki mikið líffræðilegt eða jarðfræðilegt gildi samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum og því virðist ekki vera ástæða til að vernda þessa staði ef eingöngu er miðað við alþjóðlega viðurkennda mælikvarða eins og um líffræðilega fjölbreytni.

Landslag og fegurð léku þó ákveðið hlutverk í náttúruvernd um miðja 20. öld, til dæmis hlutu margir staðir vernd í gömlu náttúruminjaskránni vegna sérstakrar fegurðar og landslags. Þetta var áður en yfirvöld á Íslandi hófu að undirrita alþjóðlega sáttmála um náttúruvernd, en með þessum sáttmálum fylgdu alþjóðlegir mælikvarðar til að meta til dæmis líffræðilega fjölbreytni, tegundir í útrýmingarhættu og svo framvegis og samhliða þeim fylgdi krafan um að ákvarðanir um náttúruvernd skyldu byggja á hlutlægum, náttúruvísindalegum mælingum. Þessi kerfisvæðing náttúruverndar hefur valdið því að fagurferðilegt gildi landslags – gildi þess að upplifa fegurð náttúrunnar – hefur ekki skipað stóran sess þegar ákvarðanir eru teknar um nýtingu eða verndun lands. Hérna sjáum við ákveðna sýn um að ákvarðanir verði að byggja á gildum sem eru flokkuð sem hlutlæg. Þetta er að mínu mati of þröng sýn, sem er dæmd til að útiloka þau gildi náttúrunnar sem eru okkur ef til vill mikilvægust.

En hvernig er þá hægt að víkka út þessa þröngu sýn og koma fegurðinni aftur inn í kerfið? Ein leiðin er að grípa einmitt til alþjóðlegra sáttmála; undirritun og staðfesting Landslagssamnings Evrópu er tæki sem gæti hjálpað til, íslensk stjórnvöld undirrituðu samninginn loksins í júlí 2012, en hann hefur enn ekki verið fullgiltur og settur í framkvæmd t.d. með lagabreytingum. Samkvæmt samningnum er mikilvægasta leiðin til þess að koma landslagi inn í kerfið sú að auka skilning og meðvitund almennings um landslag og þátt þess í að skapa okkur lífsgæði. Þessi vitundarvakning er það sem Landslagssamningnum er helst ætlað að skapa, þar er ekki að finna einhlíta hlutbundna og alþjóðlega mælikvarða sem hægt er að styðjast við til þess að mæla gildi landslags, heldur er þar einna helst að finna hvata til þess að taka landslag og gildi þess til skoðunar og umræðu og gera almenningi kleift að bera kennsl á og hafa áhrif á þróun landslagsins.

En hvernig tekur maður tillit til upplifana fólks af landslaginu? Ef landslag er skilgreint út frá fegurð sem tengslahugtak eins og ég hef gert, þá felst það að taka tillit til landslags og fagurferðilegs gildis þess í raun í því að skapa rými til þess að hlusta á sögur af tengslum fólks við landslagið og taka tillit til þeirra. Það er einmitt þetta sem Landslagssamningur Evrópu leggur til; þar sem landslag er talið „lykilþáttur í velferð einstaklinga og samfélags og að verndun þess, stjórnun og skipulag feli í sér réttindi og skyldur fyrir alla”. Ef við samþykkjum að landslag sé mikilvægur hluti af lífsgæðum fólks, þá hljótum við að vera skuldbundin til þess að taka tillit til landslags í ákvarðanatöku um náttúruvernd og nýtingu. Eins og áhersla er lögð á í Landslagssamningnum er það hluti af réttindum fólks að fá að taka þátt í ákvörðunum um landslag, að fá að láta rödd sína heyrast. 

Þó að lengi hafi þurft að bíða eftir að stjórnvöld á Íslandi fullgiltu loksins Árósarsamninginn 2011 og að enn sé beðið eftir að Landslagssamningurinn verði innleiddur má segja að almenningur hafi undanfarin ár reynt að öðlast þann þátttökurétt í ákvarðanatöku sem mælt er fyrir um í þessum samningum. Á síðustu árum og áratugum hafa sprottið upp mörg lítil og staðbundin félagasamtök, sem berjast fyrir náttúruvernd á afmörkuðum svæðum, á sínum heimasvæðum. Þessir hópar hafa orðið til vegna þess að náttúru og umhverfi ákveðinna svæða hefur verið ógnað, oft vegna áforma um virkjanir og stóriðju. En hvers vegna gerist það að þegar náttúrunni í túnfætinum heima hjá okkur er ógnað að þá fyrst hlaupum við upp til handa og fóta og viljum vernda þessa náttúru? Ég held að ástæðan sé meðal annars sú að fólk finnur til mjög sterkra tengsla við sitt nánasta umhverfi. Skynjar sig sem hluta af því. Og kannski gerum við okkur helst grein fyrir þessum tengslum þegar ógnin steðjar að. Þegar við ímyndum okkur stórfelldar breytingar á því landslagi sem hefur verið einskonar bakgrunnur lífsins sem við lifum á þessum stöðum þá gerum við okkur grein fyrir því að eitthvað mikilvægt vantar. Það vantar eitthvað í sjálfsmynd þeirra sem búa á staðnum því að hún hefur orðið til og mótast í þessu umhverfi.

Þetta endurspeglar í rauninni það sem áhersla er lögð á í Landslagssamning Evrópu, en það er sú staðreynd að landslagið sem við búum í er grundvallarþáttur í umhverfi okkar og það er um leið nátengt sjálfsvitund okkar. Við finnum að það er eitthvað annað og meira sem breytist þegar landslagið okkar breytist, möguleikar okkar á samneyti við náttúruna í kringum okkur breytist og sjálfsmynd okkar breytist líka. Af þessum ástæðum hefur krafan um aukið og opnara lýðræði verið eitt af þeim baráttumálum sem mörg náttúruverndarsamtök hafa lagt áherslu á. Þegar fyrir liggur að gera eigi stórfelldar breytingar á nánasta umhverfi fólks, og um leið á sjálfsmynd þess, þá finnur fólk þörf fyrir að fá að taka þátt í slíkri ákvarðanatöku. Þegar ákvörðun um nýtingu náttúru hefur svo mikil áhrif á tilveru okkar, sjálfsvitund og jafnvel þjóðarvitund, þá er það óþægileg tilfinning að fá engu um það ráðið hvað verður.

Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um nýjar leiðir í lýðræði, leiðir sem eru ef til vill betur til þess fallnar að taka gildi náttúrunnar til greina í ákvarðanatöku. Þegar rætt er um svokallað rökræðu- eða þátttökulýðræði er oft lögð áhersla á það að þegar fleiri aðilar koma að ákvarðanatöku, þegar t.d. íbúar svæðisins eða aðrir sem dvelja á og njóta svæðisins sem ákvörðunin varðar fá að taka þátt í ákvarðanatöku, þá eru mun meiri líkur á því að náttúran fái að njóta vafans og að þau fjölmörgu gildi sem náttúran hefur fái að koma í ljós. Náttúran hefur ekki eingöngu efnahagslegt gildi fyrir okkur sem hráefnisauðlind eða orkuauðlind. Náttúran hefur líka fagurferðilegt gildi, útivistargildi, vísinda- og fræðslugildi, og sögu- og menningarlegt gildi, hún er leiksvið þess lífs sem forfeður okkar og mæður lifðu, og í gegnum þá staði sem geyma sögu þeirra upplifum við tengsl við rætur okkar. Þau sem fyrst og fremst bera kennsl á þessi fjölbreyttu gildi sem náttúran hefur fyrir okkur hljóta að vera þau sem upplifa þessi gildi í sínu lífi, þau sem dvelja og búa í landslaginu. Það eru þessi gildi sem valda því að fólki finnst einhverju mikilvægu vera fórnað þegar á að umturna og breyta því landslagi sem umlykur það.

Þau gildi sem við leiðum af upplifunum okkar og tengslum við landslagið eru ómetanleg, í þeim skilningi að þau er ekki hægt að meta til fjár eða reikna út frá hlutlægum viðmiðum – ó-metanleg í merkingunni – ekki hægt að meta. En orðið ómetanlegt hefur dýpri merkingu en það, það sem er okkur ómetanlegt er einmitt það sem er okkur mikilvægast – það sem ekkert getur komið í staðinn fyrir. En þrátt fyrir að þessi ómetanlegu gildi sé ekki hægt að meta samkvæmt hefðbundnum vísindalegum stöðlum þýðir það alls ekki að við megum sniðganga þau. Það er hægt að meta gildi einhvers án þess að mæla það, við metum margar tegundir gilda með því að ræða þau, deila þeim með hverju öðru og setja okkur í spor hvers annars. Gildi vináttu, fjölskyldu og heilbrigðis eru slík ómetanleg gildi.

En hvað er þá næsta skrefið, hvaða skref þarf að taka til þess að skapa rými fyrir upplifanir okkar af landslagi í þeim kerfum sem við höfum komið okkur upp í ákvarðanatökuferlinu? Í fyrsta lagi er forsenda þess að það sé mögulegt að fagurferðilegt gildi landslags verði tekið inn í ferli ákvarðanatöku að samfélagsleg umræða og meðvitund um landslag og gildi þess verði aukin. Fyrsta skrefið verður því að felast í því að skapa umræðu í samfélaginu til þess að gera fólk meðvitaðra um mikilvægi landslags og hlutverk þess í lífsgæðum okkar. Í öðru lagi þarf að leggja áherslu á mikilvægi þess að hlusta á og skoða sögur þeirra sem tengjast landinu og taka þannig þátt í að skapa merkingu og gildi landslagsins. Til að leggja mat á landslag þarf að tala við fólk: kunnáttufólk um landslag eru allir þeir mismunandi hópar sem tengjast því í gegnum reynslu sína, hvort sem það eru íbúar eða gestir. Til þess að geta greint og öðlast skilning á gildi landslags þarf að safna saman öllum sögunum af landslaginu og raða þeim saman í heildarmynd. Landslag er marglaga og þess vegna þarf að fara margar mismunandi leiðir til þess að henda reiður á því. Íslenskt landslag hefur mörg lög af sögum að segja: fyrst er það jarðfræðisagan sem jarðfræðingar og þeir sem hafa upplifað áhrif jarðhræringa geta sagt okkur; svo er það gróðursagan, sögð af líffræðingnum eða bóndanum; fornleifafræðisagan og mannfræðisagan af þróun mannvistar í landslaginu; sögur listamanna og skálda; og að lokum sögur þeirra sem dvelja og búa í landslaginu og tengjast því í gegnum mismunandi upplifanir og reynslu. Landslagssérfræðingurinn er sá sem getur hlustað á og tvinnað saman allar þessar sögur svo úr verði heildstæð mynd af landslaginu sem fólkið sem sagði sögurnar getur svo notað til þess að hugleiða framtíðarþróun þess.

Mat á fagurferðilegu gildi landslags er ekki hægt að setja upp í tölfræðilegu línuriti, en það þýðir ekki að ómögulegt sé að taka tillit til landslagsfegurðar í ákvarðanatöku. Með því að skoða náið þær sögur sem við segjum af fagurferðilegum upplifunum af landslagi án þeirra fordóma að þessar upplifanir séu algerlega huglægar og afstæðar, er hægt að gera grein fyrir gildi og merkingu landslags. Slík greinargerð getur sagt okkur hvers kyns upplifanir landslagið kallar fram; hvaða hlutlægu eiginleikar skapa hvaða viðbrögð; og hvernig fagurferðilegar upplifanir og mælikvarðar breytast með tímanum og eru mismunandi eftir menningarheimum. Þetta eru spurningar sem hægt er að svara og þeim ættum við að svara. Það er kominn tími til að hætta að láta hefðbundnar hugmyndir um hlutlægni eða huglægni landslagsfegurðar koma í veg fyrir að við uppgötvum raunverulegt gildi og merkingu fagurferðilegra upplifana okkar af landslagi.