„Landslagið er ekki bara þetta efniskennda fyrirbæri sem hægt er að flokka og lýsa, heldur er það líka lyktin sem ég finn, hljóðin sem ég heyri, sögurnar sem ég skynja,“ segir Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, umhverfisheimspekingur og pistlahöfundur Víðsjár, um fagurfræði og landslag.
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir skrifar:
Í heimspekinni fáumst við mikið við hugtök og tengsl á milli hugtaka. Ég geri stundum grín að þessari áráttu okkar að þurfa sífellt að spyrja að því hvaða merkingu þetta eða hitt hugtakið hafi, ekki síst þegar við spyrjum um hugtök sem við notum mikið í daglegu lífi og öllum virðist ljóst hvað þýða. Liggur t.d. ekki bara í augum uppi hvað fegurð merkir? Eða landslag? Vitum við ekki öll til hverskonar fyrirbæra þessi hugtök vísa? Er ekki óþarfa tímasóun að vera eitthvað að velta sér upp úr því hvað þau þýða?
„Ég veit það eitt að ég veit ekki neitt“, eitthvað í þessum dúr á Sókrates víst að hafa sagt, en þessi orð minna okkur á hversu mikilvægt það er að taka engu sem sjálfsögðum hlut, gera ekki ráð fyrir að allt sem við teljum okkur vita við fyrstu sýn sé endilega eins nákvæmt og rétt og við gerðum ráð fyrir. Eins og við flest stóð ég til dæmis ómeðvitað í þeirri trú, að ég vissi alveg hvað hugtökin landslag og fegurð þýddu, þegar ég byrjaði á doktorsrannsókn minni á gildi landslags og hlutverki þess í ákvarðanatöku í umhverfismálum. Ég hélt að það væri fyrst og fremst gildi fyrirbærisins landslag sem þörf væri á að rannsaka, en ekki hugtakið sjálft sem ég hélt að ég vissi allt um hvað þýddi. En það breyttist um leið og ég fór að reyna að skilja í hverju gildið felst og ekki síst breyttist það þegar ég fór að beita aðferð fyrirbærafræðinnar í þessari þekkingarleit. Hvaða aðferð er það?, spyrjið þið væntanlega mörg.
Eins og orðið fyrir-bæri í skilningnum „það sem fyrir ber” gefur til kynna beinir fyrirbærafræðin sjónum sínum að því hvernig veruleikann ber fyrir vitundina, fyrir skynjun okkar – eða með öðrum orðum, hvernig hlutirnir birtast okkur í reynsluheimi okkar. Þegar við förum að beina athyglinni að reynslu okkar og upplifun af fyrirbærum frekar en að fyrirframákveðnum skilgreiningum á þeim, sem finna má t.d. í orðabókum eða vísindalegum flokkunarkerfum, þá kemur oft í ljós að reynslan, upplifunin sjálf af fyrirbærinu, inniheldur eitthvað meira, dýpra og flóknara, en það sem hin hefðbundna skilgreining sem við tökum sem sjálfsögðum hlut gefur til kynna. Samkvæmt íslenskri orðabók er landslag: „heildarútlit svæðis, form náttúru á tilteknum stað“ og það er það sem við sjáum kannski flest fyrir okkur þegar spurt er hvað landslag sé. Við sjáum kannski fyrir okkur eitthvað líkt því sem grunnskólabörn teikna oft: fjöll, dali, tún, vötn, ár, himinn og haf, og jafnvel eitt hús og einn vegur – allt saman í einni mynd, einni heild, form umhverfisins öll séð frá sama fjarlæga sjónarhorni. Það voru a.m.k. teiknaðar slíkar myndir þegar ég var í grunnskóla.
Fyrir um áratug, um það leiti sem ég var að byrja í doktorsnáminu, vann ég í tvö sumur við gagnasöfnun fyrir rannsóknarverkefnið Íslenskt landslag: Sjónræn einkenni, flokkun og mat á fjölbreytni sem var unnið fyrir Faghóp 1 í 2. áfanga Rammaáætlunar, en vinnan fólst einmitt í því að skrásetja það sem orðabókin vísar í: „heildarútlit svæða, form náttúru á tilteknum stöðum“ á landinu – við skráðum hverskonar form og fyrirbæri fundust á hverjum stað sem við heimsóttum og gerðum þar með kleift að búa til yfirlit yfir það hverskonar landslagsgerðir væru til á Íslandi, hversu fjölbreyttar þær væru, fágætar eða algengar, og almennt hvaða sjónrænu einkenni þær hefðu. Sannarlega mikilvægur grundvöllur til að vinna út frá við mat á hinu marglaga gildi landslags á Íslandi. En það sem ég gerði mér svo sterkt grein fyrir í þessari vinnu var að gögnin sem við söfnuðum saman, sem fólust bæði í ljósmyndum og ítarlegum greiningum á því hvaða form og fyrirbæri var að finna á hverjum stað, gætu engan veginn náð að fanga gildi þess sem ég og samstarfsfólk mitt vorum að upplifa á hverjum stað á meðan við dvöldum þar. Ég gerði mér betur grein fyrir að landslagið er ekki bara þetta efniskennda fyrirbæri sem hægt er að flokka og lýsa, heldur er það líka lyktin sem ég finn, hljóðin sem ég heyri, sögurnar sem ég skynja í landslaginu, hvort sem það eru sögur af jarðfræðilegum ferlum eða vistfræði, eða álfasögur, eða sögur af fólki og dýrum sem hafa dvalið í landslaginu í gegnum tíðina. Ég gerði mér grein fyrir að landslag, og þar með gildi þess, er marglaga. Með öðrum orðum gerði ég mér grein fyrir því að landslag er eitthvað miklu meira heldur en það sem orðabókarskilgreiningin gefur til kynna.
Þarna var reynsla mín af landslagsgerðum Íslands, lifunin sjálf, farin að kenna mér eitthvað sem ég gat ekki lært af orðabókarskilgreiningunni. Hún kenndi mér að til þess að skilja gildi landslags og gildi þess að upplifa landslag, dvelja í því, yrði ég að víkka út skilning minn á landslagshugtakinu þannig að það næði ekki einungis yfir hið efnislega lag landslags heldur líka til þess hvernig það ber fyrir skynjun fólks og vitund. Hversdagsleg notkun okkar á orðinu landslag varpar ljósi á þessa hlið hugtaksins. Við tölum til dæmis oft um pólitískt landslag eða tilfinningalegt landslag – landslag sem er óáþreifanlegt og ósýnilegt en samt sem áður skynjanlegt á einhvern hátt. Þegar við tölum svona erum við að vísa í það hvernig pólitíkin í samfélaginu eða tilfinningar okkar bera fyrir skynjun okkar, okkar líkamlegu vitund, á ákveðnum stað, á ákveðnum tíma eða í ákveðnu ástandi. Við notum orðið til að lýsa einhverskonar heildarskynjun á ákveðnum aðstæðum, ástandi eða stað, hvort sem það sem við skynjum er sýnilegt eða ósýnilegt.
Þegar við notum orðið landslag um form náttúru eða umhverfis á tilteknum stað þá erum við að vísa til ákveðinnar tegundar af skynjun – við erum að vísa til þess að skynja bara til að skynja – til að finna hvaða áhrif það hefur á okkur að horfa yfir, finna lyktina af, heyra hljóðin og vera í landslaginu. Ef við erum að nýta land til einhvers annars tölum við yfirleitt ekki um landslag; ef við erum að nýta það til að beita hestum köllum við það beitiland, ef við erum að nýta það til að byggja verksmiðju köllum við það framkvæmdasvæði en þegar við erum að skynja það bara til að skynja hvernig það virkar á okkur, hvernig það lætur okkur líða, þá köllum við það landslag. Það sama á þannig við um náttúrulegt landslag, borgarlandslag, pólitískt landslag og tilfinningalegt landslag – þegar við notum þetta orð erum við að tala um hvernig við skynjum eða upplifum það sem fyrir ber í heild sinni einmitt núna – og beinum athyglinni að því hvernig það sem við skynjum lætur okkur líða, hvernig það hreyfir við okkur.
Það er til orð yfir þessa tegund skynjunar, reyndar er það nýyrði skapað á gömlum grunni. Þessa tegund skynjunar, að skynja hvernig það sem fyrir ber lætur mér líða, hvernig það lætur mig líða-hreyfast um, vil ég kalla fagurferðilega skynjun, en fagurferðilegt er orð sem ég hef tekið upp á því að nota í stað orðsins fagurfræðilegt, en hvoru tveggja eru þýðingar á enska orðinu aesthetic. Hið fagurferðilega vísar til þeirra augnablika þegar við opnum skynfæri okkar fyrir því að taka á móti merkingu, eða leyfa henni að gerast; að veita athygli þessari heildarskynjun á því hvernig þetta listaverk, þetta landslag, þetta hljóð, þessi litur, þetta orð lætur mér líða einmitt núna. Hvað segir það mér? Hvaða hugrenningatengsl kallar það fram hjá mér? Hvernig endurómar það sem ég skynja utan við mig innan í mér? Þegar þýski heimspekingurinn Joachim Ritter sagði að landslag væri umhverfi skynjað fagurferðilega átti hann einmitt við það að við tölum um landslag þegar við skynjum umhverfi bara til að skynja það, tökum inn heildarskynjun þess hvernig umhverfið lætur okkur líða. Við tölum um landslag þegar við skynjum umhverfi fagurferðilega.
Þið veltið ef til vill enn fyrir ykkur hversvegna ég kýs að nota orðið fagurferðilegt frekar en fagurfræðilegt eins og venjan er. Aðalástæðan er sú að það er alls ekkert fræðilegt við þá tegund skynjunar og gilda sem þessi orð eiga að vísa til. Rétt eins og siðfræði er fræðigrein sem fjallar um siðferði, mat hvers og eins eða stundum heilu samfélaganna, á slæmri og góðri breytni, er fagurfræði fræðigrein sem fjallar um fagurferði, mat hvers og eins okkar á fegurð og ljótleika. Um hugtökin fegurð og fagurferði og tengsl þeirra við landslagshugtakið ætla ég að fjalla nánar um í næsta pistli. Þangað til, veltið þessum hugtökum fyrir ykkur. Hvað er fegurð fyrir þér? Hvert er þitt fagurferði?