Landsbankinn er tilbúinn til sölu og ekkert því til fyrirstöðu að hefja söluferlið. Þetta segir bankastjóri bankans. Hún telur að bæði innlendir og erlendir aðilar muni hafa áhuga á að kaupa bankann.

Íslenska ríkið á rúmlega 98 prósenta hlut í Landsbankanum. Í hvítbók um fjármálakerfið sem var kynnt í desember eru stjórnvöld hvött til að hefja undirbúning að sölu á hluta af eignarhlut sínum í bankanum. 

„Fyrir mér er bankinn auðvitað tilbúinn til sölu því að reksturinn stendur mjög vel og við stöndumst mjög vel alþjóðlegan samanburð,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. „Við erum með góð eiginfjárhlutföll, og lítum mjög vel út þegar við förum að bera saman kennitölur banka. Þannig að fyrir mér er auðvitað sá hluti í fínu lagi og við erum tilbúin til þess að hefja söluferlið. En svo verður auðvitað líka að meta það hvernig aðstæður eru á alþjóðlegum mörkuðum og hverjir eru mögulegir kaupendur bankanna. Það skiptir líka máli í þessu samhengi.“

Heldur þú að það finnist kaupandi að bankanum, eins og staðan er í dag?

„Já auðvitað trúi ég því að það finnist kaupandi að Landsbankanum. Við erum í raun og veru að selja þverskurð af efnahagslífinu og samfélaginu á Íslandi. Við erum að þjónusta viðskiptavini um allt land í öllum atvinnugreinum og það er mjög góð fjárfesting fyrir þann sem vill vera fjárfestir á Íslandi, að vera fjárfestir í Landsbankanum.“

Lækka eiginfjárhlutfall

Lilja telur að það verði ekki aðeins erlendir fjárfestar sem komi til með að hafa áhuga á að fjárfesta í bankanum.

„Ég myndi halda að innlendir fjárfestar hefðu líka áhuga á fjárfestingum í Landsbankanum, jafnt sem einhverjir erlendir fjárfestar. Þetta fer allt eftir aðstæðum hverju sinni og hvernig vindar blása.“

Eigið fé Landsbankans nam 236 milljörðum króna í lok september, og eiginfjárhlutfallið var 24,8%, sem er vel umfram 20,5% lágmarks eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins.

Nú er eiginfjárstaða bankans ansi góð, þyrfti að lækka hana áður en til sölu kemur?

„Við erum búin að vera á mikilli vegferð við að minnka eiginfjárstöðu bankans. Við erum búin að borga út 132 milljarða í arð frá því að við hófum að greiða út arð. Þannig að við erum aðeins umfram eiginfjárkröfur Fjármálaeftirlitsins og okkar eigin varúðarkröfur. Þannig að við erum ennþá með arðgreiðslustefnu og stefnum að því að greiða út ákveðinn hluta hagnaðar í arð. En við erum búin að greiða út töluvert mikið og lækka þannig stöðuna,“ segir Lilja Björk.