Landsbankinn samþykkir tilboð í Vogabyggð

05.05.2017 - 16:46
Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg
48 tilboð bárust í lóðir í eigu Landsbankans í Vogabyggð í Reykjavík. Hæstu tilboð í eignir Landsbankans á svæði 2 í Vogabyggð hafa verið samþykkt. Öll tilboð eru þó með fyrirvara um fjármögnun en á næstu vikum mun skýrast hvort tilboðsgjafar aflétti fyrirvörum svo hægt sé að ljúka söluferlinu.

Frestur til að skila tilboðum rann út 19. apríl en alls bárust 48 tilboð í eignirnar. Þar af voru fimm tilboð sem voru í fleiri en eina eign. Samþykkt hafa verið hæstu tilboð í níu eignir frá sjö félögum.

Eins og fram hefur komið á fréttavef RÚV þá er mikil uppbygging að hefjast í Vogahverfinu. Ráðist verður í endurbyggingu allra innviða hverfisins og gæti kostnaður farið upp í fimm milljarða króna.

Meðal þess sem þarf að gera er að byggja grunn- og leikskóla, leggja götur, torg og stíga, koma fyrir stofnlögnum, reisa útsýnis- og göngupalla og grjótvarna. Auk þess stendur til að reisa göngubrú og stíflu við Háubakkatjörn, byggja brú yfir Naustavog og færa Kleppmýrarveg.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, segir að þarna verði stærsti einstaki þéttingarreitur í sögu borgarinnar. Jafnframt segir Dagur að ákveðinn hluti íbúða á nýju svæðunum þurfa að vera til útleigu eða búseturéttaríbúðir. Þetta sé gert til að tryggja dreifingu slíkra íbúða.

Alls er gert ráð fyrir að 1.100 til 1.300 íbúðir verði í Vogabyggð, samkvæmt skipulagsáætlunum. Alls verði íbúðarhúsnæði á 155.000 fermetrum og atvinnuhúsnæði á um 56.000 fermetrum í hverfinu. Um þriðjungur þessa húsnæðis verður á lóðunum sem nú er verið að selja.

 

Þessi frétt er skrifuð af meistaranema í blaða- og fréttamennsku.

 

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður