Landhelgisgæslan óskaði sérstaklega eftir því, þegar samningur um vopnakaupin var gerður við norska herinn í desember í fyrra, að hann yrði ekki gerður opinber.
Bent -Ivan Myhre, talsmaður æðsta yfirmanns norska hersins, segir að enginn vafi sé á því að 250 hríðskotabyssur af gerðinni MP5 hafi ekki verið gjöf heldur söluvara og að reikningur verði sendur í lok ársins. Bæði talsmenn Landhelgisgæslunnar og Ríkislögreglustjóra hafa ítrekað sagt að um gjöf væri að ræða.
Eftir að norski herinn upplýsti á fimmtudaginn var að vopnin hefðu verið seld Landhelgisgæslunni en ekki gefin sendu bæði Landhelgisgæslan og Ríkislögreglustjóri frá sér tilkynningar þar sem skýrt kom fram að litið væri á vopnaviðskiptin við Norðmenn sem gjöf.
Einhver misskilningur virðist vera á ferðinni og spurningin er hver misskilur hvern. Nú segir talsmaður norska hersins mjög ákveðið að ekki hafi verið um gjöf að ræða heldur sölu. Bent-Ivan Myhre, talsmaður æðsta yfirmanns norska hersins, segir að Íslendingum verði sendur reikningur upp á 625 þúsund norskar krónur í lok þessa árs.
Bjóða raðgreiðslu
Norska Dagblaðið hefur fjallað um málið þar sem Myhre tjáði sig um þetta atriði. Þar kemur fram að beðið hafi verið með að senda reikning vegna efnahagsástandsins á Íslandi og að samkomulag sé til um að Gæslan geti greitt fyrir byssurnar með afborgunum. Einnig að umræðan á Íslandi hafi komið norska hernum á óvart.
Gæslan óskaði eftir leynd
Fréttastofan óskaði eftir því hjá norska hernum að hún fengi aðgang að samningnum sem gerður var 17. desember í fyrra um kaupin á 250 hríðskotabyssum. Svar barst í dag frá hernum um að ekki væri hægt að láta fréttastofuna fá samninginn. Ástæðan væri sú að íslenska Landhelgisgæslan hefði óskað eftir því að samningurinn yrði ekki gerður opinber. Nánar tiltekið að leynd myndi hvíla yfir öllum skjölum varðandi þessi viðskipti. Georg Lárusson, forstjóri Gæslunnar, neitaði í fyrstu að birta samninginn. Hann sagði þetta í viðtali við Kristínu Sigurðardóttur á sunnudaginn var að það væri ekki hægt vegna þess að um væri að ræða NATO samning sem væri trúnaðarmál.
Sem sagt Gæslunni og norska hernum ber ekki saman. Georg segir ástæðuna vera þá að um sé að ræða NATO trúnaðarskjöl en norski herinn segir ástæðuna vera vegna óskar Landhelgisgæslunnar um að leynd skyldi hvíla yfir skjölunum.
Ingvar Holm, talsmaður hersins, segir að leyndin snúi að því að skjölin verði ekki birt í Noregi en ekkert sé því til fyrirstöðu að Landhelgisgæslan birti þau. Það gerði hún reyndar daginn eftir þetta viðtal við Georg. „Í ljósi umræðu sem skapast hefur um hríðskotabyssur frá Norðmönnum til Íslendinga hefur Landhelgisgæslan ákveðið einhliða, að birta samkomulög og farmbréf sem gerð hafa verið um umræddar gjafir. Þar má sjá magn, verðmat gjafanna og almenna skilmála.“
Við þetta má bæða að samkvæmt talsmanni norska hersins er nú allt kapp lagt á að safna saman öllum upplýsingum um viðskiptin við Landhelgisgæsluna og eins fljótt og auðið er verða þau gögn afhent fjölmiðlum.