Eigendur jarðarinnar Dranga á Ströndum vilja friðlýsa jörðina og hafa sent umhverfisráðherra erindi þess efnis. Einn eigendanna segir þau ekki hafa leyfi til að ráðstafa landinu öðruvísi en þannig að komandi kynslóðir geti notið þess. Hann segir líklega óvenjulegt að landeigendur hafi frumkvæði að friðlýsingu en vonar að það hreyfi við fleirum á landinu.

Óbyggt víðerni

Jörðin Drangar nær frá Drangajökli í sjó fram, allt frá Drangaskörðum í suðri til Bjarnarfjarðar í norðri, yfir um 100 ferkílómetra og að mestu leyti óbyggt víðerni. Í greinargerð landeigenda til ráðherra segir að landslagið sé tilkomumikið, jarðfræði fjölbreytileg, gróðurfar sérstakt og náttúrufegurð almennt mikil á svæðinu og er hluti af víðáttumesta samfellda óbyggða víðerni á Vestfjörðum, en ósnortið land fari sífellt minnkandi vegna umsvifa mannsins.

Jafnvel hluti af stærri friðlýsingu

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lagt til að 1.280 ferkílómetra svæði sem tekur til Drangajökuls og nágrennis verði friðlýst sem ein heild og í tilkynningu frá landeigendum segir að þeir vilji leggja sinn skerf til þeirra áforma með því að standa að friðlýsingu jarðarinnar. Jörðin tilheyrir Árneshreppi á Ströndum og er mikil hlunnindajörð, þar er æðarvarp, reki nýttur og áður var þar selveiði. Þá er gert út til fiskveiða. Þar er ekkert símasamband og enginn vegur. Að Dröngum er eitt íbúðarhús og þrjú sumarhús og tveir hafa lögheimili á jörðinni.

Vonar að frumkvæðið hreyfi við fleirum

Sveinn Kristinsson, einn eigenda jarðarinnar, sem eru allir afkomendur síðustu ábúenda hennar, segir það líklega óvenjulegt að landeigendur hafi frumkvæði að því að fá jörð sína friðlýsta en að vonandi hreyfi það við fleirum, bæði á Ströndum og á öðrum stöðum á landinu þar sem enn eru víðerni.

Vilja að komandi kynslóðir njóti landsins

Sveinn var gestur Samfélagsins á Rás 1 í dag. Hann segir þau systkinin, landeigendur, alin upp af miklum náttúruunnendum og að foreldrar þeirra hafi eflaust viljað það sama. Systkinin hafa rætt þetta um nokkra hríð og  fylgst með sölu jarða til útlendinga og vaxandi ásókn sterkra aðila til að nýta vatnsföll og vatnasvæði til virkjana. „Okkur þykir bara mikilvægt á þessum tímum þegar margir vilja gera allt að peningum að einhver setti niður fótinn og segði: Við erum þeirrar skoðunar að landið sé svo mikilvægt og svo verðmætt að við höfum ekki efni á því og leyfi til þess að ráðstafa því öðruvísi en þannig að komandi kynslóðir geti notið þess.“

Í spilaranum má hlusta á viðtal Leifs Hauksonar við Svein í Samfélaginu.