„Að mörgu leyti fáum við að sjá hversu ólíkir þremenningarnir voru,“ segir Gauti Kristmannsson í gagnrýni sinni um Listamannalaun eftir Ólaf Gunnarsson, en bókin fjallar um listamennina og bóhemana Alfreð Flóka, Dag Sigurðarson og Steinar Sigurjónsson.


Gauti Kristmannsson skrifar:

Reykjavík áttunda og níunda áratugarins var grá og guggin að mörgu leyti. Við sem munum þá tíma höfum upplifað byltingu sem eftir á að hyggja er alveg sambærileg við þá sem varð 200 árum áður. Kalda stríðinu lauk rétt fyrir lok 20. aldar, bjór var leyfður á Íslandi og allt umhverfi manna breyttist í grundvallaratriðum með tilkomu netsins á tíunda áratugnum. Borgin hefur breyst líka svo um munar, er orðin hip og kúl, en á fyrrgreindum áratugum var hún líkari því sem maður sá í sumum austantjaldslöndum skömmu eftir umskiptin kringum 1990.

En vitaskuld bjó hún og landið yfir einhverju lífi lista og menningar, þótt fátæklegra hafi verið. En nýútkomin minningaskáldsaga Ólafs Gunnarssonar, Listamannalaun, minnti mig á þetta með dálítið kaldhæðnum hætti. Hún snýst samt ekki beinlínis um menningarumhverfi borgarinnar á þessum tíma, heldur vefur Ólafur saman teppi minninga úr samskiptum sínum við þrjá kunna listamenn og bóhema, Alfreð Flóka, Dag Sigurðarson og Steinar Sigurjónsson. Þeir voru kannski fremur alræmdir en kunnir fyrir list sína á þessum tíma og þeir gerðu vissulega oft í því að hneyksla smáborgarana í kringum sig, sem þeir fyrirlitu af meiri hörku en nokkur marxisti, því þeir sýndu þá fyrirlitningu í verki hvað eftir annað.

Sagan hverfist sem sagt um minningar Ólafs af þessum þremur mönnum, en einnig fyrstu skrefum hans sjálfs á ritvellinum og kannski má segja að hann laumi pínulitlu ástarbréfi til konu sinnar inn í hana, kannski fyrir þá þolinmæði sem hún sýndi honum á þessum tíma, en ljóst má vera af lestrinum að hann tók töluverðan þátt í bóhemlífinu sem þeim félögum fylgdi og þeir voru tíðir gestir hjá þeim hjónum, bæði hér í Reykjavík og í Kaupmannahöfn. Raunar áttu þeir einhvers konar athvarf hjá þeim, en voru um leið innblástur fyrir ungan höfund og spöruðu raunar ekki ráð og gagnrýni í samtölum og bréfum.

Stíll bókarinnar er fremur lágstemmdur og hlutlaus af hálfu sögumanns, þótt allir þessir karakterar eigi ógleymanleg tilsvör og athugasemdir sem gjósa upp eins og þau séni sem þeir voru. Það er, held ég, hárrétt ákvörðun höfundar að takast á við þetta verkefni með þessum hætti, karakterarnir fá miklu skýrari drætti og þannig nær hann einnig utan um þann harmræna húmor sem einkenndi þá þremenninga allt til dauðadags. Að sumu leyti minnti þessi saga mig á eina frægustu ævisögu enskra bókmennta, Life of Johnson, eftir James Boswell, þar sem ævisagnaritarinn var þátttakandi í sögunni en dró meistaralega upp skáldlega mynd af manni sem sannarlega skar sig úr að flestu leyti. Hann var þekktur fyrir það að skrifa hjá sér hnyttin tilsvör meistarans og halda efni um hann til haga í mörg ár áður en hann skrifaði ævisöguna.

Nú veit ég ekki hvað Ólafur hefur notað af slíkum heimildum úr handraða sínum, enda tekur hann fram að sagan sé það sem hann kallar „minningaskáldsaga“, en hann er að fjalla um vel þekkta menn í íslensku menningarlífi, lýsir þeim almennt og prívat, og vitnar beint til tilsvara þeirra í samtölum við hann og aðra. Þessi samtöl eru ákaflega trúverðug og manni finnst eins og maður heyri þá þremenninga tala og það eru ekki aðeins hnyttiyrði og annað þvíumlíkt, við fáum einnig nasaþef af angist þeirra, heift og klaufaskap og þannig er þetta ekki bara einhvers konar lofrolla um látna vini heldur portrett sem láta þá stíga ljóslifandi fram, fyrir þessum lesanda að minnsta kosti.

Þeir voru, eins og fyrr greindi, frægir fyrir margt fleira en list sína á þessum tíma, og raunar svo að ég man sem táningur eftir þjóðsögum sem um þá voru sagðar, einkum Flóka og Dag. Flóki fær raunar mest pláss í bókinni og virðist hafa verið nátengdastur sögumanni, bæði mannlega og andlega. Hann var líka sá þeirra sem fékk mesta viðurkenningu í lifanda lífi, þrátt fyrir „andborgaralega“ afstöðu sína og yfirgengilegar yfirlýsingar um eigið ágæti og snilli. Verk hans virðast einnig seljast á góðu verði enn þann dag í dag. Dagur og Steinar hafa hins vegar fengið nokkra uppreist æru á síðari árum, ekki er langt síðan út kom ritsafn Steinars í vandaðri útgáfu og þessa dagana er koma út annað slíkt með verkum Dags, hafi ég heyrt rétt, og má þar með segja að borgarastéttin á Íslandi hafi tekið þá alla í sátt, eða kannski bara gleypt þá af sinni alkunnu lævísi og hörku.

Saga þeirra þriggja á margt sameiginlegt, en helst kannski baráttuna við Bakkus, eiginlega má leiða að því líkum að þeir hafi drukkið sig hel fyrir aldur fram. Sá þáttur geymir harmrænan streng í frásögninni, því þótt lýst sé mörgum skrautlegum og skemmtilegum fylliríum, þá rennur brennivínsáin þeirra til ósa að lokum, og ekki aðeins með þeim afleiðingum að þeir deyja tiltölulega ungir, heldur læðist einnig sú hugsun að lesanda að þessir þrír hæfileikamenn hafi allir grafið sína talentu undir altari Bakkusar og ekki náð eins langt og efni stóðu til. Nú kynnu sumir að hnussa yfir svo borgaralegri hugsun, en því verður heldur ekki neitað að þeir þráðu árangur og viðurkenningu fyrir list sína eins og allir aðrir listamenn. Að sumu leyti gengust þeir aðeins upp í því að hafna svo borgaralegum viðhorfum, eins og Dagur gerði þegar hann teiknaði klámmyndir á umsókn um listamannalaun, en á hinn bóginn óttuðust þeir hugsanlega að verða gleyptir af borgarastéttinni eins sjá má þegar Alfreð Flóki fær stóra tækifærið hjá stórum gallerista í Þýskalandi, en drekkur sig svo ofurölvi fyrir báða fundina sem fyrirhugaðir voru.

Þarna liggur sá djúpi harmur sem sögumanni tekst svo vel að koma til skila með þessum lágstemmda stíl sem ólgar samt af húmor undir niðri, einkum í frásögnum af Flóka, en hann felur heldur ekki átökin við sinn grimmasta gagnrýnanda í upphafi, Steinar Sigurjónsson, og tekur ofan fyrir honum, á sinn hátt, með vísan til bréfa hans. Að mörgu leyti fáum við að sjá hversu ólíkir þremenningarnir voru, sem er harla gott, því auðvelt hefði verið að spyrða þá saman undir merkimiðunum, fyllibyttur, bóhemar og þar fram eftir götunum. Þeir voru vissulega líkir að þessu leyti, og kannski svolítil spegilmynd þessara gráu tíma, ég man eftir mörgum öðrum og ekkert frægum sem drukku svona illa og fóru annaðhvort í gröfina eða á Freeport. Magnús í Bræðratungu lifði góðu lífi í íslenskri menningu til loka hinnar stuttu 20. aldar og það sem gerði þessa þrjá menn að frægum fyllibyttum var líkast til að þeir voru listamenn sem um munaði, bæði fyrir sögumanninn og samtímamenn þeirra. Þess vegna voru það einmitt þeir sem gáfu gráu lífi Reykjavíkur á sínum tíma lit og margar sögur.