Hreiðar Hermannsson, hótelstjóri Stracta hotels, hefur í hyggju að stofna nýtt lággjaldaflugfélag. Hann ræddi við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun um áform sín.
Hreiðar segir að ákvörðun um að kanna málið hafi verið tekin eftir að WOW air varð gjaldþrota og stjórnvöld hafi ekki gripið inn í til að bjarga félaginu. Unnið hafi verið uppkast að leiðakerfi og vinna við viðskiptaáætlanir sé á lokametrunum. Næst á dagskrá sé að leggja þær áætlanir fyrir endurskoðendur og frekari athuganir á þeim standi til. Þegar því ferli sé lokið verði hægt að greina frá því hver staðan sé.
Sjá frétt: Ætlar að leggja fé í nýtt lággjaldaflugfélag
Rætt var við Hreiðar þar sem hann var um borð í flugvél, að sögn þar sem hann var staddur meðal annars í vettvangskönnun en hann flaug með lággjaldaflugfélögum frá Spáni til Luton til að kanna hvernig þau gerðu hlutina. Ferð hans lýkur svo á Íslandi í kvöld.
Spurðum um það hvaða áfangastaðir séu fyrirhugaðir segir Hreiðar að „í fyrstu er reiknað með tveimur vélum og það er náttúrlega London eða þar í kring og Kaupmannahöfn, tveir staðir í Þýskalandi og þetta er bara það sem er startað upp á í hefðbundnu flugi og síðan Tenerife og Alicante, næturflug.“
Hreiðar segir verkefnið vel á veg komið. „Það er búið að teikna það upp og svona hvað tekur við þegar reiknað er með að það fjölgi í fjórar vélar eftir tólf mánuði og þá verður tilbúið framhaldsleiðarkerfi og farið að hugsa um Bandaríkin.“
Hreiðar segir að fyrirhugað félag verði algjört lággjaldafélag með sem fæstum sölutitlum, horft verði til stóru flugvélaframleiðandanna með hvað er á döfinni hjá þeim í flugvélaframleiðslu, eldsneytisnotkun, kolefnisfótspor og annað slíkt sem hann segir að skipti miklu máli um það hvaða vélar flugfélagið noti þegar það fer af stað.
Aðspurður um hverjir séu samstarfsaðilar hans í þessu verkefni segir Hreiðar að þeir séu engir en þeir sem starfi fyrir hann í að kanna fýsileika nýs lággjaldaflugfélags séu allt fyrrum starfsfólk WOW air, úr öllum lögum hins fallna flugfélag allt upp í æðstu stjórnendur. Skúli Mogensen fyrrverandi forstjóri þess eigi þó engan hlut að máli né nokkrir hluthafar, „enda býður maður ekki hluti í neinu fyrr en maður sér algjörlega hvað er verið að bjóða.“
Að sögn Hreiðars eru komnar verðhugmyndir um flug en ekki sé enn tímabært að setja neinar slíkar tölur „í loftið“ eins og hann orðar það. Þær hugmyndir byggi á reynslu úr flugi, kostnaði við hverja flogna stund og hvert sæti. Lagt verði upp með að félagið skili lágmarkshagnaði í það minnsta. Þetta sé mikil vinna sem standi nú yfir.
Hreiðar segir mikið velta á því hve langan tíma taki að útvega flugrekstrarleyfi.„Þegar þetta liggur allt fyrir og búið að safna öllu fénu þá fer það algjörlega eftir flugrekstrarleyfinu, hvað það tekur langan tíma að fá flugrekstrarleyfi miðað við að allt klabbið sé skothelt, áætlanir, starfsfólk sem á að vinna við það og fólk sem hefur unnið að þessu og fólk sem ætlar að reka það.“
Hann hefur ekki fengið upplýsingar um það hve langan tíma taki að útvega flugrekstrarleyfi frá Íslandi en dragist það verði hugsanlega fengið flugrekstrarleyfi annars staðar frá. Ekki megi líða of mikill tími til að flugfélagið fari af stað, „því fyrr því betra.“ Það skipti sköpum að ná flugi fyrir sumarið enda séu það mikilvægustu mánuðirnir í flugi hingað til lands.