„Ég tel persónulega að alþjóðasamfélagið og kvartettinn beri sögulega lagalega og siðferðislega skyldu til að hrinda ályktun 181 í framkvæmd,“ sagði Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, á Bessastöðum í dag. Hann lagði áherslu á að ljúka yrði deilum Ísraela og Palestínumanna. Hann sagði engan árangur hafa náðst í 20 ár og nú væri mikilvægt að vinna að því að stofna ríki Palestínumanna.
Kofi Annan er á Íslandi vegna 100 ára afmælis Háskóla Íslands og heldur ráðstefnu á morgun. Hann ræddi við blaðamenn á Bessastöðum eftir komu sína til Íslands. "Ég hef alltaf sagt að við þurfum að bæta uppbyggingu öryggisráðsins og breyta því til samræmis við veruleika heimsins í dag, frekar en að það endurspegli veruleika fyrri tíma."
Kofi Annan fagnaði því að koma hingað til Íslands og sagðist hafa breytt dagskrá sinni til að komast hingað. Hann hefði meðal annars vitað af efnahagshremmingum á Islandi og hvernig Íslendingar hefðu tekist á við þær. Það væri nokkuð sem aðrir gætu skoðað.