Skiptidagar - Nesti handa nýrri kynslóð heitir ný bók sem Guðrún Nordal, forstöðukona Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, hefur sent frá sér. Í bókinni eru dregnar upp hugleiðingar um tengsl sögu og samtíma og leitað fanga langt aftur í aldir til að bregða birtu á áskoranir sem Íslendingar standa frammi fyrir í dag. Viðtal við Guðrúnu úr Víðsjá má heyra hér að ofan.
Saga forfeðra og mæðra
Í bókinni, sem Guðrún byggir upp í eins konar ritgerðaformi er leitast við að svara því hvaða lærdóma sagan geti fært okkur og hvort að í sögu forfeðra okkar geti falist vísdómur sem búið geti samfélagið í dag undir framtíðina.
Rætur bókarinnar liggja um áratug aftur í tímann, til umbrota hrunsins. „Upphafið er að ég var beðin um að halda erindi þar sé ég var beðin um að skoða hruntímann í ljósi Sturlungaaldar. Mér fannst þetta fráleitt fyrst því að auðvitað eru þetta gjörsamlega ólík samfélög og ekkert sambærilegt, þannig lagað,“ segir Guðrún sem hélt þó áfram að prjóna við þessa grunnhugsun um að skoða samtímann út frá fortíðinni.
Áskoranir í dag
„Við lifum núna miklar breytingar og finnum það öll að stórar áskoranir blasa við. Þá fór ég að hugsa hvort ég gæti skoðað okkar samtíma og framtíðina í ljósi sögunnar. Þetta var því ansi stór hugmynd sem ég var alls ekki viss um að gengi upp. Ég vildi líka alls ekki skrifa fræðibók heldur persónulega hugleiðingu og mig langaði líka að nota ritgerða- eða „esseyjuformið“ sem við höfum kannski ekki notað mjög mikið hér á landi. Þar leyfa höfundar sér að tengja með óvæntum hætti milli efnisatriða og skrifa jafnvel sjálfa sig inn í líka.“
Guðrún fer fram og aftur í Íslandssögunni í þessari bók en tengir jafnframt við sögu forfeðra sinna. „Það er snúið að velja texta og tengingar sem geta nýst okkur í samtímanum. Ég leyfi mér að fara alveg aftur til landnáms sem auðvitað er mjög löng leið. Ég er upptekin af því að benda á að okkar fortíð er ekki eins einföld, klippt og skorin og við viljum oft meina. Til þess að fá jarðtengingu og samband við þessa sögu fannst mér mjög áhugavert að tengja þetta við mitt fólk, mína forfeður og formæður. Maður þarf ekki að fara lengra aftur en til aldamótanna 1900 og þá er spennandi að skoða áskoranir okkar með hliðsjón af þeirra áskorunum. Mig langar líka að fá lesandann til að hugsa um söguna.“
Viðtalið úr Víðsjá allt við Guðrúnu Nordal um bókina Skiptidagar - Nesti handa nýrri kynslóð er hægt að heyra í heild sinni hér að ofan.