Robbie Sigurðsson, leikmaður Skautafélags Reykjavíkur, fékk þungt höfuðhögg í fjórða úrslitaleik SR og SA í gærkvöld.

Robbie fékk olnboga í höfuðið og lá óvígur eftir í 20 mínútur. Hann var síðan fluttur í burtu í sjúkrabíl vegna áverka á höfði og hálsi.

SA vann leikinn 4-1 og vantar nú aðeins einn sigur til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Íshokkí er afar hröð og „líkamleg“ íþrótt, þar sem pústrar eru algengir. SR-ingar eru hins vegar ósáttir við þá hörku sem þeir telja SA-menn hafa beitt í leikjunum til þessa. Nokkrir leikmenn SR hafa þurft að hætta leik í einvíginu vegna meiðsla.

Fimmti leikur liðanna fer fram á mánudagskvöld og verður í beinni útsendingu á RÚV2.