Gyða Margrét Pétursdóttir, dósent í kynjafræði við Háskóla Íslands, segir að ásakanir á hendur Michael Jackson sýni að rými sé að skapast í samfélaginu til að fjalla um þessar hliðar á valdamiklu fólki. Hún nefnir einnig í því samhengi mál Jóns Baldvins Hannibalssonar. Seinni hluti myndarinnar um Michael Jackson verður á dagskrá RÚV í kvöld.  

Þeir elskuðu Michael Jackson

Drengirnir Wade Robson og James Safechuck, sem kynntust Jackson fyrst þegar þeir voru 7 og 10 ára eru nú fullorðnir menn. Í myndinni lýsa þeir Jackson og segja hann hafa verið gæddan miklum persónutöfrum, vakið athygli alls staðar, allir hafi viljað hitta hann og vera með honum. Hann hafi verið góður og blíður - og hafi beitt þá kynferðislegu ofbeldi.

Gyða segir að þegar mál af þessu tagi koma upp sé tilhneiging til að gera skrímsli úr gerandanum og líta svo á að hann eigi sér engar aðrar hliðar en þær slæmu sem birtast í ofbeldinu sem hann beitir. 

„Það er auðvitað vafasamt og eins og þolendur hafa bent á, og eins og kemur mjög skýrt fram í myndinni, að þá taka báðir Wade og James fram að þeir hafa auðvitað elskað Jackson. Og Jackson hafi átt sér margar hliðar og ein þessara hliða var auðvitað sú sem birtist þeim þegar hann beitti þá kynferðislegu ofbeldi.“

Eins og aðrar #metoo-frásagnir

Fólk virðist skipast í tvær fylkingar, - það eru þeir sem trúa mönnunum og þeir sem trúa þeim ekki. Hversu trúverðugir finnst þér þeir vera?

„Af því þetta hefur líka verið tengt við #metoo-umræðuna og nú hef ég ásamt samstarfskonu minni Önnudís Rúdólfsdóttur greint #metoo-frásagnir íslenskra kvenna og það sem kemur svo skýrt fram í þeim frásögnum er þetta - að reynslan hún var alltaf til staðar en síðan skapast einhvers konar umræða og einhvers konar rými til að gangast við þessari reynslu. Og það finnst mér þeir sýna svo vel og eins og hefur líka verið rætt um að það er oft erfiðara fyrir karla að stíga fram sem þolendur í kynferðisbrotamálum af því það samræmist svo illa hugmyndum okkar um karlmennskuna og svona hlutverk karla í samfélaginu. Það samræmist illa þeirri hugmynd að vera þolandi.“  

Jackson hafði líka fjölskyldurnar á valdi sínu

Annar mannanna hafi ætlað með þessa reynslu í gröfina en umræðan í samfélaginu hafi breyst og einnig hafi þeir séð þetta í öðru ljósi eftir að þeir urðu sjálfir feður. Þá hafi þeir gert sér grein fyrir því að þeir voru ekki samsekir Jackson eins og hann hafi leitast við að telja þeim trú um.

Wade og Safechuck höfðu áður þvertekið fyrir það að Jackson hefði beitt þá kynferðisofbeldi. Gyða segir mikilvægt að hafa í huga hversu valdamikill Jackson var. Hann hafi ekki bara haft drengina á valdi sínu heldur líka fjölskyldur þeirra að einhverju leyti.

„Þannig að þetta er svona mjög sambærilegt... og kannski gerist bara í fjölskyldum þegar börn eru beitt kynferðislegu ofbeldi að þau svona leggja sig í rauninni fram um að gefa sífellt til kynna að það sé allt eðlilegt af því þeim hefur verið talið trú um að það muni eitthvað hræðilegt gerast fyrir þau og þá kannski aðra meðlimi fjölskyldunnar ef þeir segi frá.“

Kynferðisofbeldi snýst alltaf um völd

Erfingjar Jacksons og harðir stuðningsmenn hafa haldið upp vörnum fyrir hann. 

„En það sem gerir frásagnir Wade og James það áhrifaríkar er að þeir lýsa því í talsvert miklum smaátriðum bæði hvernig hann beitti þá ofbeldi og líka lýsa þeir svo afskaplega vel svona þessu mikla valdi sem hann hafði yfir þeim og hvernig þeir fóru í rauninni að trúa því að þeir væru í rauninni lítið eða ekkert án ástar Jacksons.

Þetta snýst þá um völd að einhverju leyti - eru þið með einhver sambærileg mál eða dæmi hér á landi? Já, það má segja að kynferðisbrot snúist alltaf að einhverju leyti um vald og það sem hefur kannski komið upp í huga minn núna síðustu daga er einmitt frásögn Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur. Hún hefur einmitt bæði lýst í viðtölum og bók svona þessu sama ferli hvernig gerandinn hefur þetta tangarhald á þolandanum og hvernig samband auðvitað einkennist ekki bara kynferðisbrotunum heldur líka annars konar tilfinningum.“

Rými til að ræða kynferðisofbeldi valdamikilla manna

„Það sem er áhugavert við þetta mál og það sem við höfum séð í sambærilegum málum, af því ég nefndi biskupsmálið, og kannski það sem við höfum séð í máli Jóns Baldvins Hannibalssonar, er að það virðist nú vera að skapast rými til þess að fjalla um svona valdamikla einstaklinga í samfélaginu. Og það virðist vera að skapast rými til þess að sjá það að þeir búi þá yfir kannski áður óþekktum hliðum sem samfélagið var ekki tilbúið að horfast í augu við. En síðan er þá svolítið spurningin um næstu skref og af því að allavega einhverjir hafa lýst því yfir að þeir geti ekki hugsað sér að hlusta á tónlist Jacksons og þá er nú kannski stutt í kannski þessa skrímslavæðingu og þá er svona spurning hvernig hægt er að fjalla um kynferðisbrot og á sama tíma sjá fyrir sér svona margþættari hliðar manneskjunnar.“