Grunsemdir um kynferðisbrot hafa nokkrum sinnum komið inn á borð umsjónarmanna Votta Jehóva á Íslandi á undanförnum árum. Eitt slíkt mál hefur verið kært til lögreglu. Hin hafa verið rannsökuð innan safnaðarins. Talsmaður Votta Jehóva segir af og frá að slík mál séu þögguð niður innan safnaðarins.

Konur sem hætt hafa í söfnuði Votta Jehóva segja að kynferðis- og heimilisofbeldi þrífist í skjóli safnaðarins og reynt sé að þagga slík mál niður. Brotaþolar hafa lýst kynferðisofbeldi, káfi, þöggun og hylmingu innan safnaðarins á síðustu árum. Í gær lýsti ung kona því í fréttum að hún hafi flúið söfnuðinn eftir að hún varð þess áskynja að hylmt hafi verið yfir með kynferðisbrotamönnum.

Þá er fréttastofu RÚV kunnugt um að nokkrir fyrrverandi og núverandi félagar í söfnuðinum hafi leitað sér aðstoðar sérfræðinga eftir að brotið var  á þeim kynferðislega innan safnaðarins.

Svanberg Jakobsson, talsmaður Votta Jehóva hér á landi, staðfestir að kynferðisbrotamál hafi komið upp innan safnaðarins. Hins vegar sé af og frá að hylmt hafi verið yfir með kynferðisafbrotamönnum, eins og fullyrt hafi verið.

Leiki grunur á að barn hafi sætti kynferðisofbeldi ber fólki að tilkynna það til barnaverndarnefndar samkvæmt lögum.