„Kvíði er alveg hræðilegt fyrirbrigði“

11.02.2017 - 10:10
Sigurþór Bogason hefur átt erfiða ævi. Strax sem strákur í skóla fór hann að finna fyrir ýmsu, sem hvorki hann né hans nánustu skildu hvað var. Hann gafst þó ekki upp, en hvað er það sem hrjáir hann í dag?

„Það er þráhyggja. Það er kvíði. Líklega eitthvað þunglyndi held ég og paranoja líka. Svo blandast þetta saman einhvern veginn og hefur valdið mér ógurlegum þjáningum. En ég er að rísa upp úr því og ætla mér að komast í gegnum þetta,“ segir Sigurþór. 

Hann segir að hann hafi tekið að veikjast um 11 eða 12 ára aldur. Þá hafi farið að gæta skapsveiflna hjá honum, með rifrildum við foreldra og bróður. „Ég gat verið erfiður. Ég er ekki alveg saklaus – og þau ekki heldur. Það er enginn saklaus þegar einhverjir rífast. Þá eru engir saklausir.“

Hann lýsir því hvernig hann hafi eytt mörgum tímum á baðherberginu um nætur, þá kominn með handþvottaáráttu. „Þetta var orðið kolómögulegt. Mamma og pabbi urðu að gera eitthvað. Ég var orðinn svo veikur.“

Hann var tekinn inn á Kleppsspítala 1979. „Þar var ég hafður í þrjá mánuði og leið alveg hræðilega illa. Það er versti tími allrar minnar ævi.“

Í þættinum Paradísarheimt, sem sýndur verður á RÚV á sunnudagskvöld, ræðir Jón Ársæll Þórðarson við fólk sem á við geðrænan vanda að stríða.