Þingmaður Samfylkingarinnar segir lagafrumvarp um að stöðva verkföll BHM og Félags íslenskra sjúkraliða til marks um að kvennastéttir í heilbrigðiskerfinu eigi að bera ábyrgð á stöðugleika. Ráðherra segir úrelt að tala um hjúkrunarfræðinga sem kvennastétt.

Stjórnarandstæðingar hafa deilt hart á ríkisstjórnina um lagafrumvarp sem Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mælti fyrir um að banna verkföll BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og vísa kjaradeilunni í gerðardóm ef ekki semt fyrir 1. júlí. 

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Sigurð Inga hvort vísað væri til samnings lækna frá því um ársbyrjun um þau atriði sem kjaradómur ætti að hafa til hliðsjónar við ákvörðun launa. Og ef svo væri ekki spurði hún hvort kvennastéttir væru ekki verðugar þess að fá sömu kjör og karlastéttir.

Sigurður Ingi sagði að taka þyrfti tillit til þess að samið hefði verið við hundrað þúsund manns. Þar fyrir utan þyrfti að taka tillit til menntunar og önnur atriði. Þetta sagði hann að væri alveg skýrt.

„Hæstvirtur forseti, ég tel þetta á engan hátt nógu skýrt," sagði Sigríður Ingibjörg og sagði að svar ráðherra fæli í sér að kvennastéttir í heilbrigðiskerfinu ættu sem áður að bera ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika. Við það uppskar Sigríður Ingibjörg mikið klapp gesta á þingpöllum.

Sigurður Ingi sagðist ekki vilja taka þátt í að draga umræðuna niður á svo lágt plan. Hann sagðist ekki vita betur en helmingur lækna væru konur og sagði það úrelt að tala um hjúkrunarfræðinga sem kvennastétt.

Óþarft frumvarp en biðlistar hrannast upp
„Þið hefðuð getað sparað ykkur að hranna upp biðlistunum," sagði Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sem sagði að frumvarpið væri ekki nauðsynlegt. Hann bar saman kostnað við læknasamning og samning við hjúkrunarfræðinga og sagði að hægt væri að semja. Hann sagði að ríkisstjórnin hefði vanrækt að setja í forgang skattfé, sem væri til staðar svigrúm fyrir. Vandamálið væri því sköpun ríkisstjórnarinnar.

Sigurður Ingi svaraði því til að samningar snerust ekki um að ganga að ítrustu kröfum viðsemjenda. „Ég veit að háttvirtur þingmaður veit betur," sagði Sigurður Ingi um ræðu Jóns Þórs og kvað þingmanninn vita að forgangað hefði verið í þágu heilbrigðiskerfisins í tíð núverandi ríkisstjórnar. Nú væri sett meira féð í það en nokkru sinni áður.

Ríkisstjórnin afsalaði sér samningsumboðinu
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, sagði að í fyrra hefðu verið gerðir friðarsamningar til eins árs. Þeir hefðu verið gerðir svo nýta mætti tímann til að undirbúa samningaviðræður í ár. Hún sagði að þennan tíma hefðu stjórnvöld ekki nýtt. „Heldur ákváðu menn að afsala sér samningsumboðinu til Samtaka atvinnulífsins," sagði Katrín. Hún sagði að stefna ríkisstjórnarinnar væri að afsala sér tekjum frá þeim sem mest hefði milli handanna en sækja tekjur með gjöldum á þá sem minna mættu sín. „Þessari stjórnarstefnu mótmælum við." Hún sagði að það væru ekki aðeins laun hinna lægst launuðu sem hefðu áhrif á verðbólgu heldur líka arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja og tekjur hinna efnamestu.

Fjórða frumvarp um lög á verkfall hljóti að vera áhyggjuefni
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, sagði að það hlyti að vera stjórnarþingmönnum áhyggjuefni að þetta væri í fjórða sinn á kjörtímabilinu sem ríkisstjórnin legði fram frumvarp um að stöðva verkfall. Sett hefðu verið lög á verkföll undirmanna á Herjólfi og á flugmenn en flugvirkjar dregið verkfallsboðun sína til baka. Katrín sagði þetta vera breytingu á því verklagi sem hefði verið viðhaft frá aldamótum, um setja helst ekki lög á verkföll. Nú virtist slík lagasetning vera orðin rík tilhneiging hjá stjórnvöldum.

Katrín kvaðst vera ein þeirra sem vonuðu að lög á verkfall yrðu úrræði sem úreltist, að kjarasamningahefð batnaði. „Hver er hvatinn til samninga ef alltaf vofir yfir lagasetning við enda ganganna?" spurði hún og vísaði sérstaklega til stjórnvalda sem væru hvort tveggja viðmælandi og sá sem hefði vald til að setja lög.

Hreinlegra að setja lög um hvernig launin eigi að verða
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sagði að það hefði verið miklu hreinlegra ef ríkisstjórnin hefði lagt fram lagafrumvarp um hvernig samningarnir ættu að vera, en að leggja fram frumvarp um stöðvun verkfalls og gerðardóm. Það væri vegna þess að gerðardómur ætti að ákvarða laun út frá forsendum sem ríkisstjórnin hefði samið og sett í lagafrumvarpið.

„Hér er ekki verið að fara neina samningaleið. Það er verið að hafna henni," sagði Guðmundur og sakaði ríkisstjórnina um fálæti. Hann gagnrýndi einnig hvernig gerðardómur væri skipaður en í frumvarpinu er lagt upp með að Hæstiréttur skipi þrjá fulltrúa í gerðardóm. Guðmundur gagnrýndi einnig að ekki væri kveðið á um það í frumvarpinu að gerðardómur skyldi taka mið af kjarasamningi lækna við ákvörðun sína.

„Mér finnst mál að linni“
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði að frá upphafi verkfalla lækna fyrir 33 vikum hefðu 20 vikur farið í verkföll innan heilbrigðiskerfisins. „Á þessum tíma hefur þjónusta þess eiginlega einskorðast við bráðaþjónustu." Hann sagði að með góðu samstarfi við stéttarfélög hefði verið hægt að tryggja neyðarþjónustu með undanþágum. Hann sagði að það yrði sífellt erfiðara að tryggja öryggi sjúklinga.

Hann sagði að jafnvel þó bundinn yrði endir á verkfall með lagasetningu tæki marga mánuði að koma heilbrigðiskerfinu af stað aftur. „Ég verð að játa það alveg heilshugar að mér finnst mál að linni, þá tala ég fyrir hönd sjúklinga, meðal annars, í þessum efnum," sagði Kristján Þór og vísaði til orða landlæknis um það hversu hættuleg staðan væri orðin.

Heilbrigðisráðherra vildi frekar taka á sig þungann og ábyrgðina á erfiðri ákvörðun en að láta núverandi ástand viðgangast. Við það ástand yrði ekki lengur búið og ekki væri að sjá að samninganefndir næðu saman.