Þuríður formaður var sjókona og hús hennar er að finna á Stokkseyri. Dr. Margret Wilson heimsótti húsið og varð heilluð af sögu hennar. Eftir það ákvað hún að rannsaka sjósókn kvenna á Íslandi frá upphafi byggðar til okkar tíma. Sýning á rannsóknum hennar verður opnuð í Sjóminjasafni Reykjavíkur.

Launajafnrétti og fordómaleysi

Konur þáðu sömu laun og karlar á sjónum og gera enn þann dag í dag.  Sömuleiðis gætti ekki fordóma gagnvart sjókonum um borð í bátum eða skipum.  Fordóma var frekar að finna í landi. Íris Gyða Guðbjargardóttir er sýningarstjóri sýningar Sjóminjasafnsins og rætt var við hana í Samfélaginu á Rás 1. Segja má að einungis konur komi að bæði rannsókn og sýningu því það voru eingöngu konur sem aðstoðuðu Dr. Margret Wilson í rannsóknum hennar.