Kunnugleg stef í nýju ljósi

Myndlist
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá

Kunnugleg stef í nýju ljósi

Myndlist
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
14.03.2017 - 16:06.Halla Þórlaug Óskarsdóttir.Víðsjá
Myndlistargagnrýnandi Víðsjár brá sér á tvær „hversdagslegar“ sýningar. „Það ber sköpunarkraftinum svo gott vitni þegar við sjáum hin kunnuglegu stef úr lífi okkar allra í algjörlega nýju og óvæntu ljósi,“ segir hann um sýninguna Normið er ný framúrstefna, sem stendur yfir í Gerðarsafni í Kópavogi. „Það hefur þessum myndlistarmönnum svo sannarlega tekist að gera með verkunum á þessari ágætu sýningu.“

Sigmann Þórðarson skrifar:

Óður til hversdagsleikans

„Lífið er það sem gerist á meðan maður er upptekinn við önnur plön.“ Þessa setningu gerði John Lennon að sinni í laginu Beautiful boy, frá árinu 1980, þar sem hann talar til sonar síns Sean um lífið og tilveruna. Lennon var reyndar ekki sá fyrsti sem sagði þessi fleygu orð og heldur ekki sá eini til að gera þau að sínum. Boðskapurinn er enda sígildur; að týna sér ekki í amstri dagsins heldur reyna að njóta líðandi stundar. Staldra við. Borða eina rjómabollu í “núvitund” eins og Landlæknir ráðlagði okkur að gera.

Í skammdeginu verða dagarnir oft venjubundnir, jafnvel tilbreytingasnauðir og sama lífsmynstrið virðist endurtaka sig í sífellu. Á meðan lætur maður hugann reika fram í tímann og sér fyrir sér allt það sem maður ætlar að gera með hækkandi sól. Þannig getur grámyglulegur hversdagurinn laumast áfram, algjörlega óséður.

Það er því kannski við hæfi á þessum árstíma að gefa þessum óeftirtektaverða tíma lífsins gaum. Hversdagsleikinn hefur verið mörgum hugleikinn í gegnum tíðina, Hann hefur verið skoðaður frá ólíkum sjónarhornum og birst okkur á mismunandi hátt líkt og í verkum hollenska listmálarans Jan Vermeer sem benti fólki á fegurðina í hinu látlausa amstri dagsins um miðja 17. öld eða þá í sjónvarpsþáttum bandaríska grínistans Jerry Seinfeld sem dregur fram það kómíska í sammannlegum raunum hversdagslífsins undir lok síðustu aldar.

En hvernig hefur hversdagsleikinn birst okkur í íslenskri samtímamyndlist? Þessari spurningu leitast sýningin Normið er ný framúrstefna við að svara, en hún stendur nú yfir í Gerðarsafni í Kópavogi. Sýningarstjórinn, Heiðar Kári Rannversson, hefur til þess stefnt saman verkum ellefu innlendra listamanna af tveimur kynslóðum, með einni undantekningu þó. Á sýningunni vill hann kanna þær hugmyndalegu og sjónrænu tengingar sem finna má verkanna á milli.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Kastljós

Í þessari yfirferð minni um sýninguna er við hæfi að byrja á því verki Arnfinns Amazeen sem sýningin dregur nafn sitt af. Verkið er tvíþætt, annar helmingur þess er prjónað vesti með áletruninni „Normalitet er den nye Avantgarde“ (eins og það hljómar á minni takmörkuðu dönsku) eða „Normið er ný framúrstefna“ eins og það er þýtt fyrir sýninguna. Það verður eiginlega að koma fram að Arnfinnur býr og starfar aðallega í Danmörku, og því á titill verksins sér eðlilegar skýringar.

En þó þessi texti beri ekki mikið yfir sér í fyrstu þegar maður rýnir í hann á þessu “pabba-lega” prjónavesti, þá er hann nú ekki allur þar sem hann er séður. Textinn er auðvitað algjör málfræðileg mótsögn en hann vitnar einnig á skemmtilegan hátt í manifesto-in eða stefnuyfirlýsingar þeirra listamanna sem stóðu að hinum ýmsu stefnum og straumum í myndlist síðustu aldar, m.a. einmitt Framúrstefnunni.

Hinn helmingur verksins er svo mynd af listamanninum sjálfum klæddur vestinu góða í dyragættinni heima hjá sér í Kaupmannahöfn. Þar stendur hann í inniskónum og lítur út fyrir að hafa komið til dyra eins og einhver sýningagestanna hafi bankað uppá hjá honum. Þarna kallar Arnfinnur fram hina heimilislegu og notalegu hlýju sem oft tengjast hugmyndum okkar um hversdagsleikann.Önnur verk sem bera þessa hlýju með sér eru til að mynda verk Loja Höskuldssonar sem sýnir útsaums verk af algengum pottaplöntum á grófum striga. Eitt verkanna ber til dæmis titilinn Í gluggakistunni hjá mömmu. Verkin gerast vart notalegra en það.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Arna Óttarsdóttir upphefur hið hversdagslega í einu verka sinna með því að draga athyglina að einni lítilfjörlegri blaðsíðu úr stílabók eiginmanns síns, þar sem fara saman nokkrar glósur úr kennslustund ásamt einhverju dúttli á spássíunni eins og algengt er. Þetta sýnir hún okkur sem stærðarinnar veggteppi sem maður getur ímyndað sér að hún hafi nostrað við í heillangan tíma.

Sólveig Aðalsteinsdóttir sýnir verk þar sem hún raðar upp tómum glerkrukkum undan allskyns matvöru, súrum gúrkum eða rauðrófum eða einhverju sem er örugglega til á hverju heimili og býr til úr þeim litla skúlptúra eftir því sem krukkurnar passa saman. Með því móti snýr hún algjörlega út úr notagildi hlutarins og býr til úr honum eitthvað alveg nýtt.

Með svipuðum hætti mætti lýsa verkum Önnu Hrundar Másdóttur sem umbreytir virkni hluta eða eyðir henni jafnvel algjörlega og einblínir á fagurfræðina í hlutunum sjálfum. Litasamsetningin í verkum Önnu Hrundar er líka áhugaverð en þau einkennast af mjög björtum og skærum litum eins og er reyndar algent með þessa fjöldaframleiddu hluti sem vekja áhuga hennar.Þessi litapalletta kallast á við annað verk Arnfinns Amazeen, Flíspeysurúst, sem sýnir jú flíspeysuklæddar kubbaeiningar sem ætlaðar eru til byggingar milliveggja í húsum. Flíspeysan er auðvitað áhugavert fyrirbæri þar sem hún er endurunnin úr plasti og ætti því að vera mjög viðeigandi innlegg í umræðu líðandi stundar um hlýnun jarðar. En aðallega vekur hún upp hjá manni ákveðna þá-þrá um tíunda áratug síðustu aldar. Þann tíma sem hin vinsæla tískustefna Normcore vitnar í með ofur-raunsæum hætti.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Verk Sveins Fannars Jóhannssonar eru nokkuð fyrirferðamikil á sýningunni. Sveinn Fannar býr og starfar í Noregi og ætti því kannski að vera að leita í annað nærumhverfi og hversdagsleika en birtist okkur hér á landi. Það kemur allavega ekki að sök í ljósmyndaverkum hans á sýningunni þar sem hann hefur sagað í sundur Ikea húsgögn, sem okkur eru auðvitað að góðu kunn, og raðað þeim upp með öðrum fagurfræðilegum hætti. Hér er aftur snúið upp á virkni hlutanna og notagildi þeirra.

Hugmyndin um notagildi er Guðrúnu Hrönn Ragnarsdóttur líka ofarlega í huga með verkum sínum, sem eru án titills en sýna tvo svipaða hluti sem líkjast hillum. Báðir eru þeir smíðaðir úr krossviði og í sömu hlutföllum. Annar er þó skreyttur með blaðasilfri en hinn með veggfóðri auk þess að vera hjúpaður glerplötum, sem ekki virðist vera hægt að opna. Það eru þessar vangaveltur um notagildi og tilgang hlutanna og hvernig eigi þá að skilgreina þá í framhaldinu sem gerir verkið svo áhugavert.

Emma Heiðarsdóttir vinnur eitt verka sinna sérstaklega fyrir sýninguna. Það verk samanstendur af fjórum sérsmíðuðum vinklum sem mætti þó halda að hún hafi fengið úti í næstu byggingavöruverslun. Hún stillir þeim upp líkt og þeir haldi uppi einum sýningarveggjanna, sem þeir gera þó alls ekki en gera það þó að verkum að veggurinn og sýningarsalurinn sjálfur er orðinn að viðfangsefninu og athygli okkar færist út á við og sjóndeildarhringur sýningarinnar stækkar.

Þorvaldur Þorsteinsson á tvö verk á sýningunni. Annað þeirra er alveg einstaklega fallegt í einfaldleika sínum þar sem hann hefur komið fyrir notuðum barnaskóm ofan í öðru skópari sem var líklega hans eigið. Þannig segir verkið okkur kunnuglega sögu sem við getum þó sjálf mótað eftir eigin höfði.Frásögnin er einnig stór þáttur í verki Finns Arnars Arnarsonar sem er nánast eins og leikmynd þess gjörnings sem á að hafa farið fram. Það er látið líta út eins og listamaðurinn hafi hætt í miðjum klíðum við uppsetningu verks síns. Verkfæri eru á víð og dreif, peysu hefur verið komið fyrir í einu þrepi tröppunnar sem stendur upp við hringlaga glugga annars sýningarsalarins, skissa af verkinu sjálfu liggur á gólfinu sem og hálfklárað nesti listamannsins. Þessir hlutir eru á meðal efniviðana í innsetningu Finns Arnars. Verkið tekur síðan ansi óvæntan snúning þegar það birtist okkur aftur í hinum sýningarsalnum í speglaðari mynd. Einhverskonar deja-vu?

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Verk G.erlu eða Guðrúnar Erlu Geirsdóttur fá svo að fljóta með á sýningunni og eru því undantekningin sem nefnd var áður. Verkin hennar tvö Draumur skúringarkonunnar I og II sýna ofnar borð- og gólftuskur í yfirstærð. Verkin hafa auðvitað feminískar skýrskotanir en eru auk þess bara svolítið fyndin. Þau kallast svo á við verk eftir Örnu Óttarsdóttur sem sýnir ofið viskustykki á vegg og því enn eitt dæmið um skemmtilegar tengingar á þessari ágætu sýningu.Rúsínan í pylsuendanum að mínu mati er svo hið fornfræga verk Þorvaldar Þorsteinssonar, Söngskemmtun, sem sett er upp í anddyri safnsins. Fatahengi er komið fyrir við hlið inngangsins að söngskemmtuninni og ómur ættjarðarlaga trekkir að áhugasama hlustendur en því miður virðumst við hafa komið of seint því hurðin er læst og á handskrifuðum miða stendur að ekki sé hleypt inn í salinn eftir að skemmtun hefst. Við verðum því að sætta okkur við að vera útundan. Mig langaði hvort sem er ekkert í þetta asnalega partý.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Það ber sköpunarkraftinum svo gott vitni þegar við sjáum hin kunnuglegu stef úr lífi okkar allra í algjörlega nýju og óvæntu ljósi. Það hefur þessum myndlistarmönnum svo sannarlega tekist að gera með verkunum á þessari ágætu sýningu.

Heiðar Kári hefur sannarlega lagt mikla vinnu í að koma tilgátum sínum um hversdagsleikann á framfæri við okkur. Það hefur til dæmis kallað á mikla rannsóknarvinnu að hafa uppi á mörgum verkanna þar sem þau hafa ekki verið sýnd í langan tíma, eða jafnvel alls ekki, sum þurfti að endurgera og önnur höfðu ekki verið sýnd á Íslandi áður. Sýningin í heild ber þess líka merki að mjög ákveðin sýn hafi verið að baki henni og útkoman því alls engin hending né hrákasmíð.

Þessi umfjöllun mín er síður en svo tæmandi upptalning á því sem fyrir augu ber í sölum Gerðarsafns og því mæli ég eindregið með því að fólk nái í skottið á þessari sýningu en síðasta sýningarhelgin er nú framundan.

E.S. Ég ætla að enda þennan pistil minn með hálfgerðri eftirskrift þar sem ég verð að fá að minnast á sýningu Klængs Gunnarssonar, Hjúpur, sem nú stendur yfir í SÍM salnum í Hafnarstræti. Þar sýnir Klængur okkur ljósmyndir af hversdagslegum hlutum í aftursæti bíls sem hafa ómeðvitað myndað litla skúlptúra sem vakið hafa athygli listamannsins. Klængur hefur næmt auga fyrir fagurfræðinni í hinum tilfallandi augnablikum hversdagsins sem hann setur fram með misjöfnum hætti en þó jafnan með vott af húmor sem gera verk hans svo aðgengileg.

Þá hef ég lokið máli mínu í bili - þangað til næst, hafið það hefðbundið!