Kulnun er grafalvarlegt ástand, segir Linda Bára Lýðsdóttir sálfræðingur hjá Virk, starfsendurhæfingu. „Þetta eru alvarleg einkenni. Þetta er ekki bara að leiðast. Þetta er ekki bara að vera þreyttur klukkan fjögur sem mjög margir kannast við þegar þeir koma heim. Þetta er ekki þunglyndi. Það hefur verið mikið talað um hvort þetta sé ekki bara þunglyndi. En það hafa allar rannsóknir bent til þess að svo sé ekki. Þunglyndi og kvíði getur verið afleiðing af kulnun,“ segir Linda Bára.
Rætt var við Lindu Báru í Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hún segir að það sé einkum þrennt sem einkennir kulnun.
„Það er þessi líkamlega og tilfinningalega örmögnun sem verður hjá fólki. Þá erum við ekki að tala um venjulega þreytu. Við erum að tala um örmögnun í orðsins fyllstu merkingu. Einstaklingar verða mjög þreyttir og úrvinda. Þeir geta ekki farið út í búð. Þeir geta ekki gengið upp tröppur. En það er líka þessi tilfinningalega örmögnun. Það verður bara þessi flatneskja. Þeir finna ekki lengur fyrir neinum tilfinningum. Það er náttúrulega mjög erfitt ástand. Vinnusálfræðin hefur bent á að þessu fylgir bölsýni. Maður verður svolítið neikvæður gagnvart vinnunni og maður verður neikvæður gagnvart vinnufélögum. Persónulegur árangur dvín og trúin á eigin árangur verður að engu,“ segir Linda Bára.
Sumum hættara við kulnun en öðrum
Hún segir að allir geti kulnað í starfi. Hins vegar hafi verið bent á að sumum sé hættara við kulnun en öðrum. „Það eru þessir sem við viljum öll hafa í vinnu. Það er hugsjónafólkið sem kemur inn af fullum krafti og vinnur rosalega vel og mikið. Það vill breyta öllu. Svo bara líður tíminn og það breytist ekki neitt. Það er alltaf sama vandamálið, sömu erfiðleikarnir og á endanum gefst fólk upp,“ segir Linda Bára en bendir á að fleira skýri þetta. Þannig hefur verið bent á að ákveðnir vinnustaðir ýta meira undir kulnun en aðrir.
Ef fólk heldur áfram að kulna í starfi endi með því að það hættir að vinna. Þá þurfi það að losna við allar kvaðir. „Og jafnvel bara að fara í göngutúra. Fólk fer í myndlist. Fólk fer í eitthvað allt annað þar sem það hefur engar kvaðir. Það er talað um að það þurfi að núllstilla einstaklinginn,“ segir Linda Bára. Það geti tekið tvö ár að ná sér. Þeir sem verða fyrir alvarlegri kulnun verði fyrir minnistapi. Nokkur ár geti tekið að ná sér af því.
Vinnustaðir kvenna ýta undir kulnun
Fleiri konur leita sér hjálpar vegna kulnunar í starfi en karlar. „Rannsóknir hafa verið að benda á að það virðist vera ýmislegt í vinnuumhverfi kvenna, þar sem fjöldi kvenna er starfandi, að þar sé eitthvað sem er ekki nógu gott. Mikill fjöldi og einn stjórnandi sem nær ekki að sinna hverjum og einum eins vel,“ segir Linda Bára. Þetta geti átt við um skólana og heilbrigðiskerfið.
„Á Íslandi er þetta ekki viðurkennd sjúkdómsgreining,“ segir Linda Bára. „Við höfum á tilfinningunni að þetta sé að aukast. Ég segi að við höfum það á tilfinningunni því við höfum engar tölur um þetta á Íslandi. Og ástæðan fyrir því að við höfum engar tölur um algengi er að þetta er ekki skilgreint ástand,“ segir Linda Bára.
Hún bendir á að fyrir 20 árum hafi Hollendingar viðurkennt kulnun sem sjúkdómsgreiningu. Í Svíþjóð hafi þetta einning verið viðurkennt og núna séu vinnustaðir þar í landi í skoðun.