Krónan sterkari en hún var árið 2007

16.05.2017 - 20:47
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Raungengi íslensku krónunnar er í sögulegum hæðum. Það er hærra en árið 2007 og þarf lítillar styrkingar við til að ná hæstu hæðum ársins 2005. Kaupmáttur landsmanna í erlendri mynt hefur ekki verið meiri en hann er nú í rúman áratug. Þetta sést þegar raungengi krónunnar er skoðað sem tekur mið af hlutfallslegu neysluverði milli Íslands og viðskiptalanda þess. Það er að segja hvað geta Íslendingar keypt erlendis í samanburði við hvað þeir fá fyrir peninga sína hérlendis. 

Raungengi krónunnar er þegar orðið sterkara en það var árið 2007 og nú vantar aðeins tveggja prósenta styrkingu upp á að raungengið verði sterkara en það var árið 2005. Þá var dollarinn til að mynda undir 60 krónum og ýtti sterkt gengi undir innflutning frá útlöndum. Fara þarf aftur til upphafs og lokaára níunda áratugar síðustu aldar til að finna dæmi þess að raungengi krónunnar hafi verið álíka hátt og nú. 

Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður Greiningardeildar Arion banka, segir að raungengi, að teknu tilliti til mismunandi verðlagsþróunar í hinum ýmsu löndum, sé mjög nálægt því að vera í langtímahámarki. Hann segir að á þessu séu tvær hliðar. Önnur sé sú að landsmenn geti keypt meira af erlendum vörum fyrir þær tekjur sem þeir afla sér. Hin hliðin sé sú að útlendingar þurfi að vinna lengur til að kaupa íslenskar vörur og þjónustu, hvort sem þeir eru ferðamenn á Íslandi eða kaupa íslenskar vörur erlendis. Þetta sé jákvætt fyrir launafólk á Íslandi sem greiði minni hluta af tekjum sínum en áður fyrir erlendar vörur. Þetta geti hins vegar verið áhyggjuefni því sterkt gengi krónunnar geti haft áhrif á ákvarðanir erlendra fyrirtækja og ferðamanna um hvert þeir beina viðskiptum sínum í framtíðinni. Sterkt gengi skerði samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og launafólks.