Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfubolta sem gekk í morgun aftur í raðir KR, segist ekki vera kominn heim til að taka yfir liðið eða slíkt. Hann ætli að gera það sem hann geti til að hjálpa KR og hefur sett stefnuna á EM í haust og atvinnumennsku.
Kristófer hefur leikið undanfarin fjögur ár með Furman-háskóla í Bandaríkjunum. Keppnistímabilinu lauk þar á miðvikudag og þá var lagt af stað heim.
„Ég er búinn með körfuboltalega skyldu úti og á bara námið eftir. Ég sá ekkert annað í stöðunni en að koma heim og spila áfram,“ segir Kristófer.
Sá orðrómur hefur verið lengi á kreiki að Kristófer myndi snúa heim um leið og háskólatímabilinu lyki úti og hann viðurkennir að ákvörðunin hafi verið tekin fyrir talsverðu síðan.
„Ég tók hana í desember í fyrra. Ég kom heim um jólin og hitti Palla [Pál Kolbeinsson, varaformann KR] og við settumst niður og ræddum málin. Þegar það var komið fram í mars þá vissi ég að þetta myndi gerast.“
En hvert verður hlutverk Kristófers hjá KR?
„Bara koma inn og gera það sem ég get gert, hjálpa liðinu. Ég er ekkert að koma inn og ætla að taka yfir eða gera hlutina upp á eigin spýtur. Ég er bara að koma inn og gera það sem ég get og hjálpa liðinu til að vinna.“
Stefnir á EM í Finnlandi, svo atvinnumennsku
Kristófer missti af Evrópumótinu í Finnlandi fyrir tveimur árum þar sem Furman-háskóli hafði lítinn skilning á landsliðsverkefnum Íslands. Nú er staðan önnur.
„Það er búið. Ég kláraði síðasta sumarskóla í fyrra og kláraði snemma til að komast heim og vera með í undankeppninni. Þetta er bara spennandi.“
Enginn asi að fara í atvinnumennsku
Kristófer var með virkilega fína tölfræði á lokaárinu í Furman. Hann skoraði 13 stig og tók 7,7 fráköst að meðaltali í leik. Hver eru þá hans framtíðarplön?
„Það er planið að koma heim í eitt ár, jafnvel tvö, en það kemur í ljós eftir sumarið. Ég fer núna í úrslitakeppnina og sé hvernig fer.“
NBA-deildin er hinn heilagi gral allra körfuboltamanna og Kristófer viðurkennir að það heilli en hann sé ekkert að flýta sér.
„Kannski ekki beint strax. Ég er búinn að fá mikið af fyrirspurnum frá mismunandi umboðsmönnum að bjóða mér í NBA æfingabúðir og D-league en ég stefni fyrst á Evrópu áður en ég fer að skoða eitthvað annað.“