Kristján Ara biður Guðjón Val afsökunar

18.06.2017 - 21:27
Kristján Arason, fyrrum landsliðsmaður í handknattleik, lét þau orð falla í janúar á þessu ári að fyrirliði íslenska karlalandsliðsins, Guðjón Valur Sigurðsson, væri mögulega orðinn of gamall til að standa í því að spila bæði með félagsliði og landsliði. Guðjón Valur ákvað að svara Kristjáni á vellinum.

Kíminn á svip baðst Kristján auðmjúklega afsökunar í kvöld en hann var einn af sérfræðingum RÚV yfir Ísland-Úkraína sem fram fór í Laugardalshöllinni.

Það var létt yfir mönnum í settinu eftir leik enda vann Ísland glæsilegan átta marka sigur, 34-26. Var Guðjón Valur markahæstur að vanda hjá íslenska liðinu en hann skoraði átta mörk í kvöld.

„Hann er síungur og maður er hissa þegar hann klikkar á færi“ sagði Kristján eftir leik en Guðjón Valur varð á dögunum Þýskalandsmeistari með Rhein Neckar-Löwen og á komandi Evrópumóti gæti Guðjón orðið markahæsti landsliðsmaður í handknattleik frá upphafi. 

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður