Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, sagði dóm breskra dómstóla í máli Julians Assange vera hneyksli og ekki til þess fallin að auka tiltrú þeirra á dómskerfinu í baráttunni framundan. Hann sagði dóminn aðeins vera tveimur vikum frá því að vera þyngstu mögulega refsingu og rifjaði upp að maður, sem í breskum fjölmiðlum hefur verið kallaður „hraðbáta-morðinginn“, hefði fengið sex mánaða fangelsi fyrir að láta ekki sjá sig fyrir dómi. Þó hefði hann verið sakaður um manndráp.

Kristinn ávarpaði blaðamenn fyrir utan Soouthwark-dómstólinn í Lundúnum skömmu eftir að Julian Assange var dæmdur í fimmtíu vikna fangelsi fyrir að svíkjast undan tryggingu. Assange fékk hæli í sendiráði Ekvador í Lundúnum þegar sænsk stjórnvöld reyndu að fá hann framseldan frá Bretlandi vegna ásakana um kynferðisbrot. 

Kristinn var augljóslega mikið niðri fyrir eftir að dómurinn hafði verið kveðinn upp. „Á morgun hefst svo stóri slagurinn þegar við berjumst gegn því að Assange verði framseldur til Bandaríkjanna. Þar er líf Assange mögulega í húfi fyrir það eitt að sinna einu af grunnvallaratriðunum í blaðamennsku,“ sagði Kristinn.

Bandarísk stjórnvöld krefjast þess að Assange verði framseldur vegna samsæris um að hlaða niður leynilegum gögnum með Chelsea Manning. Verði hann fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér fimm ára fangelsi.