Kristín og Jón keppendur mótsins

26.03.2012 - 20:22
Mynd með færslu
Kristín Björg Hrólfsdóttir frá Selfossi og Jón Steinsar Brynjarsson frá Keflavík voru valin keppendur Íslandsmótsins í ólympísku Taekwondo sem haldið var við Ásbrú í Reykjanesbæ í gær.

Rúmlega 70 keppendur voru skráðir á mótið frá tíu félögum og keppt í fjórum flokkum; barnaflokki (12-14 ára), flokki junior (15-17 ára), flokki senior (18-29 ára) og flokki superior (30+ ára). Keflavík vann heildarstigakeppnina með 66 stig og varð Íslandsmeistari félaga þriðja árið í röð en Selfoss hafnaði í öðru sæti með 47 stig og Afturelding í því þriðja með 36 stig.

Í tilkynningu frá Taekwondosambandi Íslands segir að algjör kaflaskil hafi orðið á Íslandsmótinu í ár með nýjum reglum, vel þjálfuðum dómurum og notkun nýrra rafbrynja sem notaðar verða á Ólympíuleikunum og hafi mótið heppnast sérlega vel í alla staði.

Dagana fyrir mótið var haldið dómaranámskeið á vegum yfirdómara Alþjóða taekwondosambandsins,Chakir Chelbat, en hann verður yfirdómari á Ólympíuleikunum sem haldnir verða í London í sumar. Á Íslandi eru nú tveir alþjóðlegir dómarar í taekwondo og mun annar þeirra, Hlynur Gissurarson, dæma á Ólympíuleikunum í London.