Krefur fréttamenn RÚV um 10 milljónir

20.03.2017 - 14:24
Héraðsdómur Reykjavíkur
 Mynd: RÚV
Guðmundur Spartakus Ómarsson krefur fréttastjóra og þrjá núverandi og fyrrverandi fréttamenn Ríkisútvarpsins um samtals tíu milljónir króna í miskabætur í meiðyrðamáli sem hann hefur höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur núna eftir hádegi þar sem ákveðið var að aðalmeðferð færi fram 27. september.

Málið varðar sjö fréttir sem sagðar voru í miðlum Ríkisútvarpsins dagana 14., 15. og 20. maí í fyrra. Í þeim var haft eftir dagblaðinu ABC í Paragvæ og blaðamanni þess að Guðmundur væri talinn valdamikill fíkniefnasmyglari með viðamikla starfsemi bæði í Paragvæ og Brasilíu.

Í stefnunni segir að hin umstefndu ummæli, 28 talsins, séu „ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnanda“ og er þess krafist að þau verði öll ómerkt.

Jóhann Hlíðar Harðarson, fréttamaður RÚV, er krafinn um átta milljónir í miskabætur, fréttastjórinn Rakel Þorbergsdóttir eina milljón, fréttamaðurinn Pálmi Jónasson 700 þúsund krónur og Hjálmar Friðriksson, fyrrverandi fréttamaður á RÚV, 300 þúsund krónur. Þá er Ríkisútvarpinu sjálfu stefnt í málinu og farið fram á að forsendur og niðurstöður dómsins, þegar þar að kemur, verði birtar innan viku í miðlum RÚV að viðlögðum dagsektum.

Guðmundur hefur þegar höfðað meiðyrðamál gegn Sigmundi Erni Rúnarssyni, dagskrárstjóra fjölmiðilsins Hringbrautar, fyrir umfjöllun um sömu mál. Aðalmeðferð í því máli fór fram í síðustu viku. Þá hefur Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður hans, sent kröfubréf á DV, Morgunblaðið, Stundina og blaðamenn þeirra miðla þar sem þeim er boðið að greiða miskabætur vegna umfjöllunar um Guðmund Spartakus og draga ummæli um hann til baka en eiga annars stefnu yfir höfði sér. Samkvæmt upplýsingum frá Vilhjálmi er einnig unnið að málshöfðun gegn dagblaðinu ABC í Paragvæ.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV