Hæstiréttur komst í dag að þeirri niðurstöðu að kosning til stjórnlagaþings sé ógild. Flestir ágallar sem kærendur kosninganna töldu að væri á framkvæmdinni, voru teknir til greina. Meðal annars var komist að þeirri niðurstöðu að kosningin hafi ekki verið leynileg. Einn kærenda vill að stjórnlagaþingið verið strax blásið af.

Hæstiréttur lauk málinu nú klukkan þrjú og ályktarorðið er „kosning til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 er ógild.“

Stjórnlagaþingskosningarnar fóru fram 27. nóvember og kærðu þrír kosningarnar í desember. Tveir þeirra voru frambjóðendur til þingsins. Sjá má á ákvörðun Hæstaréttar að margt hafi verið rangt gert í framkvæmd kosninganna.

Í fyrsta lagi var það talinn verulegur annmarki að kjörseðlar voru strikamerktir og tölumerktir og því afar auðvelt að rekja hver fyllti út hvern seðil. Þá hafi á sumum kjörstöðum verið notað pappaskilrúm í stað hefðbundinna kjörklefa, þar sem hægt var að sjá á kjörseðil kjósandans með því að standa fyrir aftan hann.

Meirihluti dómenda telur það einnig hafa verið andstætt lagafyrirmælum að það var bannað að brjóta kjörseðilinn saman, en tveir dómarar af sex töldu þetta tiltekna atriði þó ekki annmarka.

Kjörkassarnir voru heldur ekki fullnægjandi, þar sem ekki var hægt að læsa þeim og auðvelt var að taka þá í sundur og komast í atkvæði. Þá fór talningin ekki fram fyrir opnum tjöldum og hæstiréttur taldi það auk þess verulegan annmarka að fulltrúar frambjóðenda fengu ekki að vera viðstaddir kosningarnar og talninguna.

Dómurinn bendir að lokum á að fordæmi séu fyrir að kosningar hafi verið ógiltar þegar framkvæmdin væri í andstöðu við lög, og er þar bent á að árið 1994 var kosning í Helgafellssveit um sameiningu sveitarfélaga ógilt þar sem hægt var að sjá í gegnum kjörseðilinn.

Dómurinn metur alla annmarkana heildstætt og telur Hæstiréttur að vegna þeirra verði ekki hjá því komist að ógilda kosningarnar.

Nú standa yfir umræður á Alþingi um málið. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði að annmarkarnir snerust um framkvæmdina, ekki lagagrundvöllinn. Engin leynd hefði verið rofin í kosningunum og engin vandamál komið upp í framkvæmdinni. Þingið þyrfti hins vegar að íhuga næstu skref.

Jóhanna nefndi þá möguleika að kjósa að nýju eða að Alþingi kysi sjálft á þingið.  „Án efa eru fleiri leiðir í stöðunni. Í öllu falli hljótum við að leita allra leiða til að stjórnlagaþingið verði haldið og það mikilvæga verkefni sem því var falið með lögum verði klárað. Um það höfum við verið að mestu sammála hingað til og sú samstaða vona ég að haldi áfram. Menn eiga ekki að nýta þessa uppákomu til að slá pólitískar keilur. Stjórnlagaþingið var tæki þjóðarinnar til að móta nýja stjórnarskrá og stjórnlagaþingið tökum við ekki frá þjóðinni. Mikilvægt er að menn horfi fram á við og leiti leiða til að leysa málið,“ sagði forsætisráðherra.

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir niðurstöðu Hæstaréttar sýna að lagasetningin um stjórnlagaþingið hafi verið gölluð og verið sett af of miklu offorsi. Hún benti á að þetta væri í fyrsta sinn sem almennar kosningar væru ógiltar og að forsætisráðherra hlyti að íhuga þá stöðu sem nú væri komin upp.  „Þetta er enn eitt dæmið um þær ógöngur sem stjórnvöld eru komin í. Flestir myndu íhuga stöðu sína vandlega og þá kröfu verður að gera til þessarar ríkisstjórnar að hún taki þetta alvarlega og bregðist við með skynsamlegum hætti. Ég ítreka þá skoðun mína að háttvirtur forsætisráðherra væri maður að meiru ef hún gerði einmitt það og kæmi aftur í þingið á morgun og gerði grein fyrir því og kæmi með raunveruleg svör við því í hvaða stöðu þetta mál er komið.“

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra benti hins vegar á að enginn stjórnmálaflokkur hafi lagst gegn kosningunum. Hann vakti athygli á því að í engu tilviki telji nokkur maður á sér hafa verið brotið og enginn haldi því fram að niðurstaðan hefði orðið önnur þótt annað fyrirkomulag hefði verið haft á. Þegar kveðið sé á um lögmæti kosninga þá þurfi það að hafa sannast að það hafi á einhverjum einstaklingi verið brotið til að kosning teljist ólögleg. 

Skapti Harðarson, einn kærenda, var ánægður með niðurstöðuna, og telur að ekki hefði verið hægt að komast að annarri niðurstöðu.  „Heppilegast væri náttúrlega að flauta alla þessa vitleysu af og þennan fjáraustur á tímum þegar við höfum nóg annað við peningana að gera. En að öðrum kosti gætu þeir haldið áfram og efnt til annarra kosninga, sem ég held að væri nú bara til að bíta höfuðið af skömminni.“