Í desember er hefð fyrir því að tónlistarfjölmiðlar geri upp árið sem er líða og dragi fram það sem þykir hafa skarað fram úr á tónlistarsviðinu undanfarna 12 mánuði, birta ýmis konar lista yfir það besta á árinu. Mest eftirvænting er yfirleitt fyrir listum tónlistarfjölmiðla yfir bestu plötur ársins. Kvenkyns sólólistamenn skipa víða toppsæti árslistanna.
Þessi samkvæmisleikur er prýðilegur vettvangur til að rífast um og ræða það helsta sem er að gerast í tónlist á hverjum tíma. Að grúska í árslistunum getur líka verið góð leið til að uppgötva örlítið brot af því óendanlega magni af tónlist sem fór framhjá manni þegar hún kom út. Og listarnir eru ekki síður áhugaverðir til að greina stóru línurnar í svallleikastigveldi poppheimsins hverju sinni, hvað þykir töff og hvað ekki, hvar gróskan er mest og svo framvegis.
Í stafrænum og streymisvæddum tónlistarheimi er plötuformið, albúmið, LP-platan, geisladiskurinn reyndar ekki lengur eina útgáfuformið. Ný kynslóð tónlistarmanna gefur út stök lög, smáskífur, stuttskífur, blandspólur,tónlistarmyndbönd, myndbandaraðir og svo framvegis án þess að pæla endilega í 12 laga, 40 mínútna heildarplakka sem við köllum plötu. Að velja bestu plötur ársins er á vissan hátt takmarkandi og íhaldssamt - líklega það sem kallað hefur verið rokkismi. En við látum það liggja milli hluta í bili og sökkvum okkur í plötu-árslista helstu tónlistarfjölmiðla heimsins.
Gott hjálpartæki í þessum leiðangri er vefsíðan Albumoftheyear.org sem tekur saman tölur úr öllum þeim árslistum sem hún grefur upp hjá fjölmiðlum og eins og staðan er núna hafa þeir fundið 79 árslista, allt frá danska tónlistarblaðinu Gaffa til Rolling Stone.
Það fyrsta sem maður tekur eftir og er leiðarstef víðast hvar er að konur raða sér í efstu sætin. Sú plata sem safnar flestum stigum í samantekt síðunnar, sú sem er nefnd einna víðast og kemst einna ofarlegast er plata eftir hinsegin svarta konu, það er platan Dirty Computer með bandarísku tónlistarkonunni Janelle Monáe. Þetta er nýjasta platan í hinni lauslega þematengdu plöturöð eða poppóperu sem hefur verið nefnd Metropolis, en eins og hefur verið fjallað um áður á þessum vettvangi notar tónlistarkonan framsækið popp meðal annars til að velta fyrir sér réttindamálum vélmenna í martraðarkenndri framtíðarsýn.
Það virðast reyndar vera frekar vera menningardeildir hefðbundinna fréttafjölmiðla sem setja Janelle Monáe á toppinn frekar en sérhæfðir tónlistarmiðlar. Hið erkitýpíska tónlistartímarit Rolling Stone velur aðra svarta tónlistarkonu í efsta sætið hjá sér. Tímaritið er greinilega að reyna að snúa við karllægni og hvítum rokkismanum sem var lengi ríkjandi hjá blaðinu og velur plötu rapparans Cardi B, Invasion of Privacy, sem þá bestu. Cardi B hóf starfsferil sinn sem nektardansmær, varð samfélagsmiðlastjarna, en hefur nú sannað sig svo um munar á rapptónlistarsviðinu með Invasion of Privacy, litríkri en harðhausalegri rappsprengju.
Á topplista Rolling Stone eins og víðast hvar eru konur allsráðandi, á eftir Cardi B koma kántrýsöngkonan Kacey Musgraves, Camila Cabello, Pistol Annies, Ariana Grande og það er ekki fyrr en í sjötta sæti sem Y-litningur birtist á listanum, en hann tilheyrir síkadelíu-rapparanum Travis Scott. En fyrir utan Cardi B er plata hans Astroworld líklega sú rappplata sem er nefnd hvað víðast á árslistum. Reyndar hafa ekki enn birst topplistar frá stærstu hip-hop-tímaritunum, til að mynda Source, XXL og Fader. Það síðastnefnda hefur valið bestu lög ársins og þar er það poppprinsessan Ariana Grande sem situr í efsta sætinu með Thank you next. Grande hefur átt erfiða daga undanfarið, sprengjuárás á tónleikum hennar í Manchester í maí 2017 og andlát kærasta hennar, rapparans Macs Millers á þessu ári. En henni hefur tekist að miðla og vinna úr tilfinningum sínum í tónlistinni, og er plata hennar Sweetener víða ofarlega á listum ársins. Tónlistartímaritið Billboard velur hana til að mynda bestu plötu ársins.
Tónlistarvefritið Pitchfork hefur í gegnum tíðina fengið á sig nokkurn snobbstimpil enda stundum þótt yfirlætisfullt í tilraunum sínum til að ákvarða hvað þykir mest töff og úthúða hinu. Í ár er Pitchfork í nokkrum kúrekagír enda er þar kántrýsönkonan Kacey Musgraves í öðru sæti og í efsta sæti er platan Be the Cowboy með japansk-bandarísku tónlistarkonunni Mitski. Platan er einnig valin sú besta af indímiðlunum Consequence of Sound og The Line of Best Fit, og samkvæmt reiknivél Albumoftheyear.org nær hún oftast í efsta sæti slíkra lista. Tónlistin er grípandi og tilfinningaþrungin popptónlist sem sækir mikið í brunn jaðar og til indírokkhefðarinnar, en þarna eru líka dansvænir slagarar - til að mynda lagið Nobody.
Pitchfork segir hins vegar besta lag ársins vera með sykruðu rokksveitinni The 1975 en sú sveit virðist halda uppi heiðri gítar-bassa-trommu-gengja heimsins. Rokktímaritið Spin og gamli fallni breski rokkrisinn NME segja plötu þessara Manhcester-pilta A Brief Inquiry Into Online Relationships, vera þá bestu sem kom út á árinu.
Næstar á lista NME koma aðrar klassískar gítar-bassi-trommur-sveitir Arctic Monkeys og Idles. Það má líka benda á að hljómsveitin Dream Wife er valin sú þrettánda besta, en meðal liðsmanna sveitarinnar er sönkonan Rakel Mjöll Leifsdóttir. Íslenskir listamenn koma reyndar víðar fyrir á topplistum. Víkingur Heiðar, Anna Þorvaldsdóttir og Nordic Affect eru öll á topplista New York Times yfir bestu upptökurnar á sviði sígildrar tónlistar, og á ónúmeruðum topplista hins áhrifamikla raftónlistarvefs Resident Advisor yfir bestu plötur ársins er meðal annars safnplata frá rússnesku útgáfunni Trip en hún inniheldur meðal annars tónlist frá raftónlistarmönnunum Bjarka, Biogen og Exos - sem allir tengjast útgáfunni sterkum böndum.
Tónlistartímaritið Mojo er í djössuðum fíling og velur plötu Kamasi Washington, Heaven and Earth, þá bestu á árinu, en kosmískur djassbræðingur Washington hefur náð furðumiklum vinsældum meðal indí- og poppunnenda. Þungarokktímaritið Metal Hammer velur nýjustu plötu pólska blackmetal-goðsagnanna og Íslandsvinanna í Behemoth, I Loved you at your darkest, þá bestu. Uncut velur svo nýjustu plötu hljómsveitarinnar Low, Double Negative, en platan er í efstu sætum topplistanna mjög víða. Gagnrýnendur eru yfir sig hrifnir af rafskotnum ambíent-tilraunum þessara gamalkunnu indírokksveitar og dulúðlegu draumapoppara. En þetta er ein þeirra platna sem sést hvað víst á topplistum gagnrýnenda í ár.
Noisey, tónlistarútgáfa jaðar-fjölmiðlaveldisins Vice, velur plötu tónlistarkonunnar Tierru Whack þá bestu. Whack World eru 15 lög á 15 mínútum í mismunandi stíl en uppfull af gáska og sköpunargleði. Og þar eins og víðar eru það konurnar sem raða sér í toppsætin, kunnuleg nöfn Kacey Musgraves, Ariana Grande, Snail Mai, Janelle Monae og sænska tónlistarkonan Robyn.
Breska tilraunatónlistartímaritið Wire sem leggur sig yfirleitt fram við að vera algjörlega á skjön við meginstrauminn velur djassplötuna Your Queen is a Reptile sem þá bestu á árinu. Það er plata sem hefur fengið nokkuð pláss hér í Lestinni, en Tómas Ævar Ólafsson sagði í pistli á þessum vettvangi, að platan væri hárbeitt ádeila á bresku konungsstjórnina, einstaklega vel heppnaður bræðingur stjórnmála, söguafbyggingar og tónlistar.