Lengi vel var talið að konur hefðu aldrei verið að ráði í heimspeki. „Þetta var okkur var kennt. Svo kemur í ljós að konur hafa ævinlega stundað heimspeki eins og allar aðrar fræðigreinar, en aðstæður þeirra til þess hafa bara verið mismunandi í gegnum aldirnar,“ segir Sigríður Þorgeirsdóttir prófessor í heimspeki. Á síðustu árum hefur Sigríður verið í fararbroddi í þeirri viðleitni að grafa upp kvenhugsuði fortíðar.

„Bara ef við lítum á forngríska heimspeki þá eru til í sögulegum heimildum tilgreiningar á hundrað til tvöhundruð konum sem að stunduðu heimspeki. Til dæmis var móðir Platóns, Periktíone, í hópi pýþagoringa,“ segir Sigríður Þorgeirsdóttir. „Oft voru þessar konur virkar í fræðasamfélagi síns tíma en svo þegar kom að því að skrifa og skjalfesta þessa sögu þá týnast oft nöfn þeirra. Oft voru rit þeirra gefin út undir nöfnum manna sem þær voru skyldar, þannig að þeirra hefur ekki verið minnst. Nú hafa konur í greininni farið að rannsaka þetta og það er hafinn mikill uppgröftur í fortíðinni og þá kemur allt önnur saga í ljós.“

Dagbækur með merkum konum

Sigríður stóð fyrst fyrir útgáfu dagbókar með kvenheimspekingum árið 2014 en nú kom út ný dagbók fyrir árið 2019 á ensku, sem er til sölu meðal annars á Amazon. Sigríður segir margar ástæður fyrir útgáfunni. „Ég er nú til dæmis bara eina konan í prófessorsstöðu í heimspeki við Háskóla Íslands. Þetta hefur verið svolítið einmanalegt því að kallarnir eru kannski ekki næmir á þetta. Ég hef verið að reyna að benda á að sagan sé öðruvísi og það séu fleiri konur þarna og mér hefur fundist ég þurfa að gera það með einhverjum skilvirkum og einföldum hætti.“

Sigríður fór með dagbókina nýju til Kína nýlega. Þar dreifði hún bókinni á heimsþingi heimspekinnar þar sem átta þúsund heimspekingar, þar með fjögur þúsund bara frá Kína, komu saman. „Í Kína hefur heimspekin verið mjög karlhverf og þar er mjög mikil vanþekking á framlagi kvenna í heimspekinni. Þannig að mér fannst mjög mikilvægt að koma þessu þarna að, þó að ég hafi fundið að þar er við ramman reip að draga.“

Leggja af bókstafstrú

Sigríður segir að menning sem er bara karlhverf að þessu leyti og lítur fram hjá hlut kvenna sé nánast eins og trénuð bókstafstrú. „Þetta er bara eins og í bókstafstrúarbrögðum að ætla að kenna sögu greinarinnar með þeim hætti að hlutur kvenna gleymist. Kvenleg viska er bara samofin visku yfir höfuð í gegnum tíðina. „Philosophia“ merkir ást á Sophiu sem var gyðja visku. Í upphafi standa gyðjur fyrir mikla og fjölbreytta visku. Sophia er til dæmis ákveðin hugmynd um visku sem er miklu víðfeðmari en einhver abstrakt upphafin viska. Hún er hugmynd sem snýst um lífið, líkamann, dómgreind, skynbragð og smekk. Miklu víðari hugmynd um heimspekilega þekkingu sem við þurfum svo mjög á að halda í dag.“

Í viðtalinu hér fyrir ofan, úr Víðsjá á Rás 1, er rætt við Sigríði nánar um kvenhugsuði og víðari skilning og þekkingu í samtímanum, til dæmis í menntakerfinu. Víðari skoðun á heiminum er hægt að leiða fram með ólíkum röddum karla og kvenna úr heimspekisögunni og fræðasamfélagi samtímans.