Þýski fiðluleikarinn Isabelle Faust er einn fremsti fiðluleikari samtímans og einn eftirsóttasti einleikari heims. Hún hefur starfað mörg undanfarin ár fyrir Harmonia Mundi útgáfuna þar sem upptökur hennar hafa hlotið mikið lof gagnrýenda. Faust er einleikari í fiðlukonserti Johannesar Brahms í kvöld hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Tónleikarnir hefjast kl. 19:30, en þeir eru í beinni á Rás 1 sem hitar upp hálftíma fyrr með ítarlegu viðtali við tónlistarkonuna.
Á efniskrá tónleika kvöldins er einnig 10. sinfónía Mahlers sem tónskáldið náði ekki að klára fyrir andlát sitt 1911 og var ekki flutt í endurbyggðri mynd fyrr en á sjöunda áratugnum. Það er finnski hljómsveitarstjórinn Osmo Vänska sem stjórnar flutningi.
Hér fyrir ofan má heyra brot úr þættinum Á leið í tónleikasal sem hefst kl. 19 og þar sem hlustendur eru leiddir inn í efnisskrá kvöldsins. Þar verður rætt ítarlega við Isabelle Faust en Vänskä verður tekinn tali í hléi um verk Mahlers og sögu þess.
Konsert í efsta klassa
„Þetta er auðvitað einn af þessum stóru stóru konsertunum og einn af stóru þýsku konsertunum okkar,“ segir þýski fiðluleikarinn. „Við fiðluleikarar eigum nokkur yfirburða verk, ekki svo ýkja mörg, en Brahms konsertinn er vitanlega eitt þeirra. Hann er í efsta þrepi,“ segir Isabelle Faust.
Hér fyrir ofan hljóma brot úr viðtali við Faust sem leikið verður í heild kl. 19. Kynnir á tónleikunum er Guðni Tómasson en undir innslaginu hér fyrir ofan hljómar brot úr öðrum þætti konserts Brahms þar sem Isabelle Faust leikur einleik með Mahler kammersveitinni undir stjórn Daniels Harding.