Pólíamorus fólk, sem hér er valið að kalla fjölkært eða fjölhleypt, einkennist af því að það á í tveimur eða fleiri ástarsamböndum samtímis, svokölluðum fjölástarsamböndum. Stundum eiga tveir aðild að hverju sambandi en stundum myndar fjölhleypt fólk hópsambönd. Spegillinn ræddi lagalegar og tilfinningalegar flækjur tengdar þessu fyrirkomulagi við tvær fjölhleypar konur, þær Eddu og Settu Maríu. Hvað eru fjölástir?

Hreinskilni lykilatriði

„Fyrir mér, persónulega held ég að þetta snúist um að vera opinn fyrir hugmyndinni um að elska fleiri en einn aðila þar sem allir vita af hver öðrum, hreinskilni og allt uppi á borðunum,“ segir Setta. 

Dæmi um uppsetningu fjölástarsambands þar sem hvert samband er einungis á milli tveggja aðila. Tvö strik merkja hjónaband, eitt strik annars konar samband.

Ólíkt opnum samböndum

Edda býr með manni en á einnig kærasta. Sama á við um Settu. Hún hefur verið með manni í fjögur ár og býr með honum en er þess utan í tiltölulega nýju sambandi með öðrum manni. Mennirnir þeirra eiga sömuleiðis aðrar kærustur. Þær segja fjölástarsambönd ólík opnum samböndum að því leyti að opnað sé á tilfinningasambönd við fleiri en einn, ekki eingöngu kynlífssambönd. Þá komi fleiri að ákvarðanatökum í fjölástarsamböndum. „Í opnum samböndum er kannski eitt par sem setur allar reglurnar og fólk sem gengur inní sambandið fer eftir þeirra reglum en í fjölástarsamböndum eru samskipti á alla bóga,“ segir Setta. 

Ekki hærra flækjustig

En kallar þetta fyrirkomulag ekki á öfund og ótal tilfinningaflækjur? Nei segja þær, ekki endilega, málin séu bara leyst.

Setta segir að samböndin byggi á grunni mikilla samskipta. Það þurfi að taka tillit til allra, setja mörk og ræða opinskátt um tilfinningar sínar. Flækjustigið sé þó ekki hærra en í öðrum samböndum. Það eina sem sé í raun flókið sé að finna tíma til þess að sinna báðum samböndunum sem hún eigi í. 

Halda ekki framhjá

Oft er talað um að sambönd og hjónabönd séu skuldbinding, það þurfi að færa ákveðnar fórnir, svo sem að líta framhjá freistingum. Þær Edda og Setta segja af og frá að þær séu ótrúar eða þjáist af skuldbindingafælni. Fjölástir séu ekki frjálsar ástir.

„Mér finnst þetta miklu stærri skuldbinding en ég hef nokkurn tímann tekið á mig. Hún snýst um að eiga hreinskilin, opin og góð samskipti og að tækla tilfinningaleg vandamál og flækjur sem koma upp. Það er ekki í boði að verða afbrýðisamur og fara í fýlu, svoleiðis hegðun eða samskipti myndu bara sprengja þetta utan af sér. Auðvitað er samt krafan um að vera trúr. Þú getur alveg haldið framhjá þó þú sért í svona sambandi ef þú ert ekki hreinskilinn eða heiðarlegur eða ferð á bak við það sem búið er að semja um. Þú þarft að færa fórnir í þeim skilningi að þú þarft að taka tillit til tilfinninga og aðstæðna hinna sem þú ert í sambandi með. Við erum ekki alveg að finna upp hjólið, þetta er bara svolítið önnur nálgun,“ segir Edda. 

Fjölhleypur karl sem Spegillinn ræddi við tók undir þetta og sagðist í raun telja meiri tryggð og siðferðislega skuldbindingu fólgna í því að vera samtímis í mörgum samböndum en í til dæmis raðkvæni eða raðveri, fyrirkomulagi þar sem fólk giftist og skilur á víxl.

Skiptir sér af vali á getnaðarvörnum

Tengslin við hina manneskjuna í lífi manneskjunnar í lífi þeirra segja þær jafnan góð en misnáin. Karlinn segir mikilvægt að ræða allar breytingar og bera undir þá sem eiga í hlut. Hann eigi óbeint aðild að sambandi konu sinnar og kærasta hennar og vilji til dæmis koma að ákvörðunum um hvaða getnaðarvarnir þau noti.

Ekki hægt að eiga aðra manneskju

En hvað finnst þeim um hefðbundin parasambönd? Felst eitthvert andóf gegn þeim í fjölástarsamböndum? „Ef það er einhvers konar andóf er það gegn þeirri pælingu að þú getir átt fólk, því það er ekki hægt. Það er líka bara svo margt annað í gangi, ný hugmyndafræði sem snýr að því að fólk vilji sníða sinn lífsstíl að eigin þörfum en ekki laða sig að lífsstíl sem búið er að ákveða að sé samþykktur,“ segir Edda.

Komið til vegna aukins jafnréttis kynjanna?

Karlinn sem Spegillinn ræddi við telur að þessi gerð sambanda í dag sé til komin vegna þess að staða karla og kvenna sé að verða jafnari. Fólk sé ekki jafnháð maka sínum og áður og því geti það tekið áhættuna sem fylgir fjölástarsamböndum.  Áhættan sé nefnilega vissulega til staðar. Annað þeirra gæti gert mistök sem grandað gætu sambandinu. 

Hægt að eiga tvo bestu vini

En þarf að elska alla jafnt? Þær Edda og Setta eru ekkert endilega á því en benda á að foreldrar geti elskað börn sín jafn mikið og að það sé hægt að eiga tvo bestu vini.

„Mér finnst vinasamlíkingin mjög góð því þú getur eignast nýjan vin og þið náið rosalega vel saman og það er rosalega spennandi og ef þú hættir að sinna hinum vinum þínum þá fjarar kannski sambandið við þá út. Þú getur ákveðið að halda áfram í hina vinina. Þú verður að taka ákvörðun um að sinna hlutunum. Þetta er kallað new relationship energy og nær yfir spennuna í því nýja. Þegar þú ert rosa skotinn, það er ekki hægt að bera það saman við eitthvað sem er búið að vera í nokkur ár. Það er talað um að þú þurfir að vera meðvitaður um það þegar þessi orka er ríkjandi hjá þér þannig að þú gefir ekki bara skít í gamla sambandið á meðan.“

Skilgreint sem sambandshneigð

Setta María segir fjölhleypni vera persónueinkenni. Þetta sé ekki eitthvað sem komi til með að eldast af henni. Sumir tali um sambandshneigð í þessu samhengi. Þær Edda og Setta hafa ekki greint fjölskyldum sínum frá samböndum sínum og segjast verða varar við fordóma í samfélaginu. „Ég kom út fyrir öllum vinum mínum fyrir tveimur árum, því mér finnst þetta skipta máli. Ef ég er niðri í bæ að halda í höndina á einhverjum vil ég ekki að það byrji að ganga kjaftasögur um mig,“ segir Setta og bætir við að hún vilji segja foreldrum sínum frá þessu. „Mér finnst óþægilegt að vera ekki heiðarleg um það hver ég er og hvernig ég lifi og maður á ekki að þurfa að vera í þeirri stöðu finnst mér,“ segir Edda. 

Kemur til greina að stofna samtök

Fjölhleypt fólk á Íslandi heldur úti hópi á Facebook en í honum eru um 70 manns. Setta segir að til greina komi að stofna sérstök samtök til að berjast fyrir hagsmunum þessa hóps. Annars staðar á Norðurlöndunum eru slík samtök starfandi. En hverjar eru helstu lagalegu hindranirnar sem fjölhleypt fólk stendur frammi fyrir? Eins og stendur getur fólk einungis skráð sig í sambúð með einum einstaklingi, fólk í óhefðbundnum samböndum getur ekki nýtt persónuafslátt hvers annars, erfðamálin eru flókin og Edda segir dæmi þess að fjölkærni sé notuð gegn fólki í forræðismálum. Börn flæki málið. „Ég sé þetta ekki sem eitthvað sem væri flókið uppeldislega, sambandslega eða lífsstílslega heldur frekar lagalega eða forræðislega,“ segir Edda og Setta bætir við að óhefðbundnar fjölskyldur og skilnaðarfjölskyldur glími við svipuð mál, margt í baráttu þeirra myndi gagnast fjölhleypu fólki.“

Börnin vön þremur fullorðnum við morgunverðarborðið

Fjölkæri karlinn sem Spegillinn ræddi við á tvö ung börn með eiginkonu sinni. Kærasti konunnar gistir heima hjá þeim nokkrum sinnum í viku og börnin eru vön því að það séu þrír fullorðnir við morgunverðarborðið. Maðurinn hefur ákveðið að eignast ekki fleiri börn og gekkst því undir ófrjósemisaðgerð. Eiginkona hans hefur hins vegar velt því fyrir sér að eignast barn með kærasta sínum. Til þess að kærastinn yrði faðir barnsins samkvæmt lögum þyrftu hann og eiginkona hans að skilja að borði og sæng, þar sem eiginmaður móður telst faðir barns hennar samkvæmt barnalögum. Hann segir þó að vandinn sé aðallega af praktískum toga, hann geti vel skipt um lögheimili tímabundið. Þau hjónin séu gift í kirkju og guð á himnum haldi rétt bókhald yfir hvort ástin sé sönn, það gildi því einu þótt sýslumaðurinn í Reykjavík stimpli einhverja pappíra.

Tvennt í stöðunni

Samkvæmt lögmanni Samtakanna 78 er tvennt í stöðunni. Önnur leiðin er að hjónin skilji áður en barnið fæðist og hin að móðirin fái feðrun hnekkt með því að fara í véfengingarmál fyrir dómstólum þar sem skorið er úr um það með rannsóknum að eiginmaður hennar sé ekki faðirinn. Að því loknu þyrfti hún að fara í viðurkenningarmál til að fá hinn manninn viðurkenndan sem föður, aftur með rannsóknum. Það sé lögboðið að svona mál séu gjafsóknir og þær því kostnaðarsamar fyrir ríkið. Staðan væri enn erfiðari ef konan ætti eiginmann og kærustu, en ekki kærasta, og vildi eignast barn með henni með gjafasæði. Kærastan gæti þá ómögulega fengið móðernið viðurkennt þar sem véfengingar- og viðurkenningarmál er einungis hægt að höfða á grundvelli líffræðilegs skyldleika. Hins vegar gæti hún ættleidd barnið af föðurnum, samþykki hann það.

Ekkert sambandsform manninum eðlislægt

Kristján Þór Sigurðsson, mannfræðingur, segir að í raun sé ekkert sambandsform mannskepnunni eðlislægt. „Svona eðlishyggja er talin frekar vafasöm, við erum náttúrulega með ákveðnar hvatir og eðlisávísanir sem eru svipaðar og hjá öðrum dýrum en það er gengið út frá því að allt sem maðurinn gerir og býr til í sínu samfélagi og hugmyndir í kringum það séu menningarlega mótaðar. Einkvæni, pabbi, mamma og 1,2 börn, vísitölukjarnafjölskyldan er í raun ekki eðlilegt form eða eðlilegra en eitthvað annað.“ Þá bendir hann á að það hafi ekki tíðkast mjög lengi, skammt sé síðan stjórfjölskylduformið var ráðandi hér á landi. 

Svipað fyrirkomulag hjá samfélagi í Norður-Gana

Fjölkvæni og fjölveri tíðkast víða og sums staðar tíðkast sambærilegt fyrirkomulag og Edda og Setta lýsa. Kristján bjó um tíma í samfélagi í Norður-Gana og þar var algengt að hjón ættu viðhöld. Allt var gert til að koma í veg fyrir að fjölskyldan splundraðist. „Ef konan eða karlinn voru orðin eitthvað leið gátu þau fengið sér ástmann eða ástkonu en það þurfti allt að vera uppi á borðinu. Ef konan var komin með ástmann þurfti hann að koma með henni heim og kynnast karlinum hennar og jafnvel gefa honum einhverja symbólíska gjöf, einn kjúkling til dæmis. Þetta var félagslega viðurkennt en litið var á leynilegt framhjáhald sem alvarleg svik," segir Kristján. Hann segir sambandsform oftast byggja á hagrænum, hagkvæmum og pólitískum forsendum. Fjölskylduform og hjúskapur séu í flestum samfélögum ákveðin bygging í kringum það að koma næstu kynslóð á legg, skapa öryggi og félagslegt verðmæti. Í raun sé afar óvenjulegt í sögulegu tilliti að byggja slíkt á rómantískri ást eingöngu.

Nýfrjálshyggjan hefur áhrif

Kristján segir okkar tíma einkennast af umróti og vissri óvissu. Tilraunir fólks með sambands og sambúðarform mótist hugsanlega af því. Þetta sé hluti af einstaklingshyggjunni og hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem síðastliðin 30 ár hafi verið sterk á Vesturlöndum. „Að við höfum rétt á því að velja, hvort sem valið er í raun raunverulegt,“ segir Kristján. Hann segist þó ekki telja fjölástarsambönd algeng í samfélaginu. Kjarnafjölskyldan sé enn ráðandi.