Undir kvöld komu Pólverjar á Íslandi saman við Reykjavíkurtjörn, mynduðu hjarta í snjónum og kveiktu á kertum við mynd af Adamowicz borgarstjóra Gdansk til að heiðra minningu hans. Samtök Pólverja á Íslandi stóðu fyrir viðburðinum.
Mikið fjölmenni var við útför Adamowicz sem var í Maríukirkjunni í Gdansk í dag. Adamowicz lést eftir árás á mánudag. Þjóðarsorg er í Póllandi í dag vegna fráfalls hans.
Borgarbúar í Gdansk stóðu klukkustundum saman í biðröðum til að komast að í þéttsetinni kirkjunni, sem er eitt helsta kennileiti borgarinnar og ein stærsta múrsteinskirkja heims.
Fyrir utan kirkjuna safnaðist einnig saman fjöldi fólks og fylgdist með athöfninni á risaskjám. Andrzej Duda forseti Póllands og Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, voru meðal syrgjenda ásamt fleiri pólskum og erlendum fyrirmennum.
Pawel Adamowicz hafði verið borgarstjóri í Gdansk síðan um aldamót og naut mikillar hylli. Árásarmaður lagði til hans með hnífi á sviði á sunnudagskvöld frammi fyrir mörg hundruð manns í fjáröflun til styrktar barnaspítölum landsins. Hann lést af sárum sínum á mánudag, fimmtíu og þriggja ára.
Mörg þúsund manns fylgdu kistu borgarstjórans þegar hún var flutt í gegnum borgina til kirkjunnar í gærkvöld, og fjölmennar minningarathafnir hafa verið haldnar um allt Pólland undanfarna daga.