Íslensk stjórnvöld skoðuðu alls konar leiðir sem ríki hafa farið þegar flugfélög lenda í erfiðleikum. Þær leiðir hafi verið misjafnar, gengið misilla og nánast engin þeirra gengið vel. Þetta sagði Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, á opnum fundi atvinnuveganefndar Alþingis í morgun. „Eftir þá ráðgjöf og greiningar sem við fórum í þá kom ekki til greina að íslenska ríkið færi að reka flugfélag og tæki við kennitölu sem ekki væri alveg ljóst hvað þýddi.“
Í framsögu sinni á fundinum fór Þórdís yfir stöðuna eftir fall WOW. Hún sagði að flugfélagið hefði flutt 700 þúsund farþega til landsins í fyrra þannig að óbreyttu skildi það eftir sig mikið skarð. Hún nefndi þó að undanfarna daga hefðu sést ákveðin viðbrögð. Wizz Air hefði aukið framboð sitt og líka Icelandair og svo hefði hollenskt flugfélag tilkynnt um komu sína. „Auðvitað hafa langflest flugfélög fest flota sinn yfir háannatíma en við sjáum samt ákveðin viðbrögð.“
Þórdís nefndi sömuleiðis að WOW hefði frá apríl til desember ætlað að flytja hálfa milljón farþega, þar af 300 þúsund beint til Íslands en undanfarna daga hefði sú tala farið undir 200 þúsund þegar tekið hefði verið tillit til aukins framboðs annarra flugfélaga. Þessar tölur breyttust þó frá degi til dags.
Þórdís sagði að fyrirtæki væru mismunandi stödd innan ferðamannageirans og því misvel í stakk búin til að takast á við fall WOW. Og það væri staðreynd að öll röskun hefði meiri áhrif á landsbyggðina en höfuðborgarsvæðið. „Við höfum rætt það í langan tíma að ferðaþjónustan muni breytast og það verða hagræðingar sem eru ekki sársaukalausar en mikilvægar og eðlilegur hluti af atvinnugrein sem er í mótun.“ Þetta séu auðvitað ekki góðar fréttir en óumflýjanlegar.
Þórdís sagðist hafa orðið við umræðu um hvort íslenska ríkið hefði átt að fara sömu leið og Þjóðverjar gerðu með Air Berlin. Hún benti á að sú leið hefði fyrst og fremst snúist um að koma fólki heim því þar hefðu 80 þúsund farþegar orðið strandaglópar.
Hún sagði að áætlun ríkisstjórnarinnar hefðu að verið skipulögð í kringum að koma fólki heim, sú áætlun hefði verið nægilega vel unnin og undirbúin enda hefði íslenska ríkið ekki þurft að leigja vélar eða taka við flugfélagi. Hún sagði að þýska ríkið hefði ætlað sér að fá stóran hluta af þeim peningum sem lagðir voru til en það hefði ekki gengið eftir.„Eftir þá ráðgjöf og greiningar sem við fórum í þá kom ekki til greina að íslenska ríkið færi að reka flugfélag og tæki við kennitölu sem ekki er alveg ljóst hvað þýddi.“
Ráðherra sagði að þrátt fyrir svona áfall og röskun breytti það engu um þá langtímasýn sem stjórnvöld hefðu fyrir íslenska ferðaþjónustu. Það þyrfti meiri framleiðni, aukna áherslu á vöruþróun og nýsköpun og miklu meiri starfræna tækni. „Því þetta er mannaflsfrek atvinnugrein í landi þar sem vinnuafl er dýrt.“
Þórdís var spurð hvort til greina kæmi að fara í svipað átak og gert var eftir gosið í Eyjafjallajökli með Inspired By Iceland. Hún sagði marga af þeim samningum vera að renna út en það væri spurning hvort fara ætti í slíkar aðgerðir til að hafa áhrif á sumarið. Staðan væri þó þannig að Ísland væri komið á kortið, þetta snerist núna um að sækja þann fjölda ferðamanna sem hefði ætlað að koma til landsins en þyrfti að finna aðrar leiðir til þess.
Hún nefndi sömuleiðis að umfjöllunin um gjaldþrot WOW erlendis hefði verið mest fyrsta daginn. Það hefði strax dregið mikið úr henni daginn eftir. Hún sagði að lítill hluti hennar hefði verið neikvæð heldur aðeins hlutlaus. „Ísland er klárlega á kortinu, áfangastaðurinn Ísland hefur ekkert breyst heldur snýst þetta um hvernig eigi að koma fólkinu hingað.“