Platan Hive Mind með The Internet erfist í beinan svartan karl- og kvennlegg frá fönk- og sálarhetjum fortíðarinnar en með nútímalegum snúningi, svo úr verður þokkafull samsuða fullkomin til að ylja sér við á nöprum febrúarkvöldum.
Í upphafi annars áratugs 21. aldarinnar reis upp í Los Angeles rosalegt hip hop gengi, Odd Future Wolf Gang Kill’em All, klíka rappara, graffara, pródúsera, dansara og kvikmyndagerðarmanna. Þetta var ungt og það ögraði, þau gáfu út tónlist, grafík og myndir í gegnum Tumblr-síðu, röppuðu um nauðganir, morð, limlestingar og litað á köflum nokkuð stækri karlrembu og hinsegin fordómum, og í myndmáli og fagurfræði notuðu þau meðal annars hakakrossa og hryllingsmyndaminni. Í hópnum var ein stelpa.
Það er þess vegna írónískt að ein helsta stjarnan úr hópnum núna sé bæði kona og lesbía, Syd The Kid, sem fer fyrir fönk og RogB-hljómsveitinni The Internet. Af öðrum úr hópnum sem ennþá hafa einhverja vigt mætti nefna Frank Ocean og Tyler The Creator, sem báðir hafa í seinni tíð gefið í skyn að laðast að eigin kyni. En að Syd The Kid, sem var skírð Sidney Loren Bennett, og hlaut listamannsnafnið frá yngri bróður sínum. Hún kom sér upp frumstæðu hljóðveri heima hjá foreldrum sínum þegar hún var fjórtán ára og byrjaði að fikta við taktsmíðar og tónlistarsköpun, flestar af fyrstu Odd Future plötunum, svo sem meistaraverkin Bastard og Earl eftir Tyler The Creator og Earl Sweatshirt, voru teknar upp þar.
Syd The Kid stofnaði árið 2011 hljómsveitina The Internet ásamt hljómborðsleikaranum Matthew Martin og gítarleikaranum Steve Lacy. Nafnið The Internet er nokkuð sérstakt, í nútímanum er það dálítið eins og hljómsveitin þín heiti vatn eða súrefni, en titillinn kemur víst frá Odd Future-félaga Syd, sem var þreyttur á að vera spurður hvaðan hann væri í viðtölum, og byrjaði bara að svara The Internet. Syd fannst þetta fyndin pæling og greip hana á lofti sem nafn á verkefnið.
Þeirra fyrsta plata, Purple Naked Ladies, kom út 2011 og þar má meðal annars finna þetta oddhvassa syndþafönk í laginu Cocaine þar sem rapparinn Left Brain ljær þeim raddbönd sín, og myndbandið sem var gert af Odd Future er sýrumaríneruð sirkussturlun sem gneistar í skynfærunum. Platan Feel Good kom svo út tveimur árum síðar, en bandið vakti fyrst athygli indípressunnar og jaðars meginstraumsins með plötunni Ego Death árið 2015.
Þar hitti Syd á akkúrat rétta nótu og tónhæð, hljómurinn var bæði jaskaður og nautnalegur, og lagasmíðarnar sterkari en nokkru sinni fyrr. Að henni komu líka gestir eins og Janelle Monée, Tyler The Creator og Kaytranada. Á grundvelli velgengni þeirrar plötu túruðu The Internet heimshornanna á milli, og komu meðal annars fram í Valshöllinni (Valsheimilinu? (Vodafone-höllinni)) á Iceland Airwaves árið 2016, á bestu tónleikum þeirrar hátíðar að mati þess sem hér talar, betri en goðsagnakennda rappsveitin Digable Planets sem lék á eftir þeim og ég var spenntastur fyrir. Einn af hápunktunum var þegar þau tóku ábreiðu af vangasálarballöðu André 3000 úr Outkast, Prototype.
Fjórða breiðskífa Internetsins kom svo út síðasta sumar og skoraði hátt á mörgum árslistum um áramótin, hún nefnist Hive Mind, með tunguna lengst út í kinn, og vísar í hjarðhugsunina og múgsefjunina sem oft er sagt að veraldarvefurinn hafi alið af sér. Platan er samt ekki hætishót meðaltalsleg eða venjuleg, hljómurinn syndugur og lifaður, grúvin eru klúr, og minna á dökkar fönkhetjur eins og Sly Stone á There’s a Riot Going On. Í fyrsta laginu Come Together er botninn í aðalhlutverki, sveimar yfir og í kringum taktsláttinn, meðan gítarinn hjakkast og raddirnar svífa fisléttar yfir jarðtengingunni.
Fyrsta smáskífan, Roll (Burbank Funk), byggist svo á trommubreiki frá engum öðrum en Þóri Baldurssyni, diskósessjonleikaranum margfræga sem var einn nánasti samverkamaður Giorgio Moroder og Donnu Summer. Bældar bassatrommurnar og háu og hvellu klöppin koma úr laginu Sing Sing frá árinu 1978 með diskósveitinni Gaz sem Þórir leiddi. Það lag hefur í gegnum tíðina verið samplað í 144 lögum samkvæmt síðunni whosampled.com , meðal annars af ekki ómerkari listamönnum en Wu Tang Clan, Lil John, Kylie Minouge og Grandmaster Flash, en svona hljómar það í meðförum Internetsins.
Í Come Over eru trommurnar snarkandi skítugar og bassinn hífaður, lagið ígildi Booty Calls klukkan sirka skemmtistaðir eru að loka, Come Over, komdu heim til mín, og springur svo út í rasandi gröðu gítarsólói undir lokin. Wah-wah-gítarinn í La Di Da, er eins seventís klámyndasmekklegt og gítar-riff getur orðið, og Syd syngur viðlagið daðurslega á móti gítarleikaranum Steve Lacy þvert yfir svellrakt dansgólfið.
Syd er ekki með sterka rödd eða breitt raddsvið, og væri seint tiltæk í powerballöður ala Bonnie Tyler eða Mariah Carey, en röddin er með þétta áferð sem snarliggur yfir sótugu fönkgrúvunum sem hljómsveitin framleiðir. Þetta er sál sem byggist á traustum grunni Sly Stone, Minnie Rippterton, Stevie Wonder, og Curtis Mayfield, lökkuð með nýsálartónlist Erykuh Badu, D ‘Angelo og Mary J. Blidge og máluð og skreytt með litbrigðum frá vinstri sinnaðri nýnýfönksálinni frá Connan Mockasin, Sharon Jones og Anderson Pak. Grúvið er alltaf til staðar en ekki alltaf á réttum stað, takturinn flöktir handan hins línulega og mælanlega, hljóð og þagnir drafa hvort aftan í öðru, og stundum á mörkum þess að falla í sundur en hanga alltaf rétt svo saman, eins og í hamaganginum Bravo.
Yrkisefnin eru svo mestmegnis af holdlegum toga, seiðandi heimdrög seint að kvöldi þegar kynhvötin tekur völd, og líkamann hungrar ónumdar lendar. Kíktu í heimsókn, hvar ertu, viltu ekki gista, þú byrjaðir, vertu með, mig langar, eru bara dæmi um lagatitla sem gerast svo bara sóðalegri eftir því sem dýpra er rýnt í texta þeirra. There Aint Nothing left To Say syngur hún nautnalega yfir hæga brokkríðilega taktinum í Look What You Started. Og takturinn heldur áfram í hinu réttnefnda The Beat Goes On, og fer í óvæntar áttir, hleypur yfir Drum and Bass lendur og tún tilraunakenndar raftónlistar, áður en hann róast niður í sveimkenndar þreifingar í síðasta laginu Hold On.
Platan Hive Mind erfist í beinan svartan karl- og kvennlegg frá fönk- og sálarhetjum fortíðarinnar, en tilraunakenndum nútímakryddum er sáldrað yfir DNA-keðjuna, svo úr verður þokkafull samsuða sem er fullkomin til að ylja sér við á dimmum janúar- og febrúarkvöldum, ekki síst ef að góður félagsskapur er tiltækur.