Tryggvi Hallgrímsson sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu segir að samræður alþingismannanna á Klausturbar séu tákn um það sem kallað hefur verið yfirráðakarlmennska eða eitruð karlmennsla og að íslenskt samfélag sé búið að gefast upp á slíkum viðhorfum. Ekki sé langsótt að tengja grófustu lýsingarnar og orðin sem alþingismennirnir viðhöfðu á Klausturbar við ofbeldi.
Menning sem við viljum vinna gegn
Flestir kannast ekki við að svona orðfæri sé notað í karlahópi - en svo segja aðrir að þetta sé dæmigert karlatal sem oft er eigi sér stað t.d. í búningsklefum. Tryggvi segir að auðvitað kannist sumir við þetta og aðrir ekki. „En ég held að þegar við tengjum þetta við tal í búningsklefum eða tal karla þar sem þeir eru einir saman þá auðvitað setjum við þetta í samband eða samhengi við viðhorf og menningu sem við verðum að vinna gegn.“
Eitt af verkefnum Jafnréttisstofu sé að efla jafnrétti með öllum ráðum og fá karla til að taka þátt og til að skoða sín viðhorf. Upptökurnar gefi heldur betur tilefni til þess.
Ekki tákn um hina einu sönnu karlmennsku
Er hægt að segja að tal af þessu tagi sé tákn um karlmennsku?
„Nei ég á erfitt með að segja að þetta sé hið eina sanna tákn um karlmennsku. Jafnréttismálin eru samansafn af mörgum málefnum. Þegar við horfum á karlmennsku sérstaklega sem viðfangsefni kynjafræðinnar, þá er almennt talað um að karlmennska getur verið margs konar.“
Svona orðfæri sé ekki orðfæri valdamikilla manna í samfélaginu. Tryggvi nefnir sem dæmi mál Gilzeneggers. Það hafi kennt okkur hvernig karlar geti gengið alltof langt í orðfæri sem sé bara ofbeldi.
Eitruð yfirráða karlmennska
„Ég á erfitt með að segja að það orðfæri eigi endilega að setja í einhvers konar samhengi við karlmennsku, en þegar kynjafræðin fjallar um karlmennsku þá tölum við um margar karlmennskur. Og ein er hegemonísk karlmennska eða yfirráðakarlmennska. Og sú karlmennska er oft tengd við það sem kynjafræðin talar um sem eitraða karlmennsku. Hún er eitruð vegna þess að hún tjáir viðhorf sem eru fjandsamleg konum. Og ég get ekki sagt annað að þetta samtal sé dæmi um samtal sem sé fjandsamlegt konum.“
Þó að konur séu ekki oft gerendur í slíkum samtölum þá geti þær auðvitað verið þátttakendur í yfirráðakarlmennsku.
Samtalið líklega ekki birt fyrir 5 - 10 árum
Tryggvi hittir oft alþingismenn vegna starfa sinna hjá Jafnréttisstofu. Hann segir að samtal alþingismannanna á Klausturbar hafi komið á verulega á óvart og hann hafi aldrei átt í samtali sem sé í líkingu við það. Hann segir að málið sé sorglegt.
„En síðan spyr maður sig, getum við notað það sem tækifæri til að tækla þessa umræðu betur af því þarna er mál komið upp og kemur til vegna þess að samfélagið er búið að gefast upp við að kóa með þessu, búið að gefast upp á svona viðhorfum. Og við getum tengt það við þær byltingar sem hafa átt sér stað í íslensku samfélagi t.d. í tengslum við metoo. Og við getum spurt okkur, hefði svona samtal verið opinberað fyrir einhverjum 5 eða 10 árum síðan og ég er ekki viss.“
Saman komin til að fordæma svona samtal
Siðferðisbyltingar eigi sér ekki stað með sannfærandi glærusýningu frá háskólafólki. Þær eigi sér stað vegna raunverulegra atvika þar sem fólk fordæmi svona hegðun.
„Og hér erum við bara saman komin sem þjóðfélag til að fordæma svona samtal og það er auðvitað dálítið gott að sjá.“
Jafnrétti sé margir málaflokkar. Síðustu ár hafi það verið tengt við umræðuna um ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi.
„Og kynferðislegt ofbeldi er ekki bara eitthvað eitt. Kynferðislegt ofbeldi getur verið í ýmsum birtingarmyndum og meðal annars í því hvernig við tölum. Og hlustandi á leiklestur Borgaleikhússins í gær þarna þegar þeir sitja saman, hvað voru þeir þrír undir lokin, og nota grófustu lýsingar og orð sem við höfum heyrt - það er ekki langsótt að tengja þetta ofbeldi.“
Standa Íslendingar sig nógu vel?
Tryggvi segir að málið sé ekki jákvætt. Það gefi tilefni til þess að spyrja hvort Íslendingar standi sig nógu vel í því að ýta áfram málefnum kynjajafnréttis
„Auðvitað er þetta nátengt siðferði og kennslu í siðfræði og við höfum bent á það Jafnréttisstofa og starfshópar sem hafa unnið með málefni karla og jafnréttis að það er geysileg þörf að taka málefnin til umræðu í skólunum og tengja þau við siðferði, samskipti, náin sambönd, og hvernig þau tengjast jafnréttismálum er nánast að verða almenningi augljóst.“
Undanfarin ár hefur, í jafnréttisbaráttunni, mikil áhersla verið lögð á umræðuna um launamun kynjanna. Jafnréttisstofa hefur það verkefni að fylgja eftir jafnréttisáætlunum hjá fyrirtækjum og stofnunum.
Jafnréttisáætlanir gagnleg tæki
Eitt af þeim verkefnum sem heyra undir Jafnréttisstofu sé að kalla eftir jafnréttisáætlunum hjá fyrirtækjum og stofnunum.
„Jafnréttisáætlanir eru gagnleg tæki til þess að takast á við hvernig við tölum og hvernig við hegðum okkur á vinnustöðum og í samskiptum almennt. Jafnréttisáætlanir taka til auðvitað launamunar kynjanna og starfsþróunar, samræmingar fjölskyldu og atvinnulífs en í jafnréttisáætlunum má líka gera einhvers konar átak eða verkefni sem tengjast kynferðislegri áreitni og þar viljum við sjá fyrirtæki og stofnanir vinna betur. Og í því sambandi má náttúrulega minna á að við höfum séð dálitla breytingu síðustu ár á því hvernig fyriræki eru tilbúin til að taka þau samtöl og ég held að við getum sagt að það eru bara jákvæðar breytingar.“