Kjörgripir í Perlunni

17.05.2017 - 18:34
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Náttúruminjasafn Íslands verður að öllum líkindum með svæði á náttúrusýningunni sem nú er verið að setja upp í Perlunni. Hönnun sýningarsvæðisins er hafin og þar verða kjörgripir þjóðarinnar til sýnis. Sextán náttúruverndarsamtök skora á stjórnvöld að láta verða af byggingu sérstaks Náttúruminjasafns.

Alþingi samþykkti í fyrra þingsályktunartillögu um hvernig minnast skuli 100 ára afmælis fullveldis Íslands. Í henni felur Alþingi ríkisstjórninni að sjá til þess að gert verði ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns á fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Áætlunin liggur nú fyrir Alþingi en ekkert fé er áætlað í safnbyggingu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  RÚV
Sextán samtök afhenda menntamálaráðherra áskorun

Skora á stjórnvöld 

Sextán náttúruverndarsamtök afhentu ráðherra ályktun í morgun þar sem þau skora á Alþingi og menntamálaráðherra að láta verða af byggingu safnsins. 

Kristján Þór Júlíusson, menntamálaráðherra: „Ég er ekkert úrkula vonar um það að við getum komið málum til betri vegar og hyggst vinna með þeim hætti og svo sjáum við hvað setur.“

„Kemur  til greina að náttúruminjasafnið taki þátt í sýningunni í Perlunni? Já ég hef átt ágætis viðræður við forstöðumann safnsins og við erum að vinna að ákveðinni tillögu í því.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  RÚV

Hönnunarvinna hafin

Hilmar Malmquist, er forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands:   
„Það er kominn aukafjárstuðningur til safnsins til þess að vinna þessa hönnunarvinnu nú strax og það er umtalsverð viðbót við það sem safnið hafði.“  

Náttúruminjasafnið á að fá til umráða um 300 - 500 fermetra í Perlunni.

„Náttúruminjasafnið mun fyrst og fremst sinna flóru landsins og fánu en einnig jarðfræðinni. Þarna verða líka kjörgripir sem þjóðin á til sýnis vonandi Geirfuglinn, ég geri ráð fyrir því og fleiri góðir kjörgripir.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  RÚV

Sýning í Perlunni og uppbygging safns

Sýning Náttúruminjasafnsins í Perlunni og nýtt Náttúruminjasafn fara ágætlega saman.
 
Árni Hjartarson, jarðfræðingur og  formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags er í forsvari fyrir hóp sextán samtaka. Hann segir að samtökin það sé einmitt það sem samtökin vilji sjá gerast.

„Það er að safninu verði gert kleift að þróa upp sýningu og jafnframt sé uppbygging sjálfsstæðs safnahús í undirbúningi.
Það þarf ekki að bíða eftir því að safnið rísi og fara síðan að undirbúa sýningu heldur geti náttúruminjasafn þegar hafið sýningastarfsemi og því sem slíkri sýningu fylgir þ.e.a.s. fræðsla og kynning.“

Hilmar Malmquist segir að allt verði sett á fullt núna.  „Vonandi verður opnuð sýning á vegum Náttúruminjasafnsins í Perlunni í síðasta lagi 1. desember 2018.“

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV