Kirkjan hefur alltaf stigið inn á hið pólitíska svið og verður að standa fyrir mannúð og mannhelgi. Kirkjugriðin sem tveimur íröskum hælisleitendum voru veitt í Laugarneskirkju aðfaranótt mánudags, voru táknrænt andóf. Þetta segir prófessor í kirkjusögu.
Hælisleitendurnir voru sendir úr landi á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar.
Um þá voru staðin svokölluð kirkjugrið, sem eiga rætur sínar að rekja til miðalda, til Pax Dei, guðsfriðarins svokallaða, sem gekk út á það að þeir sem ekki gátu varið sig fyrir hinu veraldlega valdi, fengju griðarstað í kirkjum, og nytu þar friðhelgi. Guðsfriðurinn fólst í því að ákveðnar persónur, tími og staðir voru lýstir friðhelgir. Undir þetta féllu t.d. bæði vígðir menn og konur, en að sama skapi áttu þau að vera vopnlaus og forðast þátttöku í veraldlegum deilum.
Og guðsfriðurinn náði líka til þeirra sem ekki gátu varið sig, t.d. varnarlausra kvenna, barna og óvopnfærra karla. Sérstakt níðingsverk þótti að beita slíkt fólk ofbeldi.
Guðsfriðurinn náði einnig til rýmis, þar með talið klaustra, kirkjugarða og kirkna. Sá sem sóttur var með vopnavaldi mátti leita skjóls í kirkju og átti að njóta þar friðhelgi - óháð því hvaða brot viðkomandi hafi framið. Það náði þó ekki til þeirra sem framið höfuð ránmorð eða drepið mann á helgum stað.
Í kristnirétti Árna Þorlákssonar, krisnirétti nýja sem lögfestur var árið 1275 var að finna nákvæm fyrirmæli um kirkjugrið hér á landi. En kirkjuskipan Kristjáns þriðja, sem lögfest er í Hólabiskupsdæmi 1551, leysti kristnirétt af hólmi.
„Þannig við getum sagt það að þessi skýru lagaákvæði um kirkjugrið falli úr gildi í kjölfar siðaskipta,“ segir Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu við Háskóla Íslands.
Skýrasta dæmið um brot á kirkjugriðum hér á landi er þegar Jón Arason, síðasti kaþólski biskupinn á Norðurlöndum fyrir siðaskipti, var tekinn til fanga ásamt sonum sínum í kirkjunni á Sauðafelli í Dölum haustið 1550.
En með því að fordæma Dyflinarreglugerðina sem mannréttindabrot er kirkjan þá ekki að stíga með mjög afgerandi hætti yfir á hið pólitíska svið?
„Auðvitað er kirkjan að stíga hér með vissum hætti inn á hið pólitíska svið. Það hefur kirkjan alltaf gert. Þegar lög um kirkjugrið voru sett þá var þetta pólitísk aðgerð. Þá var verið að móta samfélag af ákveðnu tagi. Samfélag sem að virti mannhelgi og rétt einstaklinga. Og kirkjan er bara í raun og veru að halda áfram þessari látlausu viðleitni sinni til þess að standa fyrir mannúð og mannhelgi í þessu samband,“ segir Hjalti.
Hjalti segir að kirkjan verði oftar að taka einarðari afstöðu til ýmissa stórra mála sem uppi eru í samfélaginu.
„Og þá alltaf að vera að undistrika mikilvægi þess að mannréttindi, mannhelgi og kærleikur séu virt.“
„Málefnið er það mikilvægt að ég held að það hafi verið réttlætanlegt að taka þetta skref. Við vorum þarna að sýna ákveðið táknrænt andóf og vekja athygli á málefni þar sem að kristin sjónarmið svo sannarlega hafa ýmislegt fram að færa þegar um hælisleitendur er að ræða,“ segir Hjalti.