Eldfjallið Etna á Sikiley rankaði við sér í gærkvöld, á aðfangadagskvöld, þegar gos hófst í hlíðum þess. Etna er virkasta eldfjall Evrópu og gýs reglulega, þannig að íbúar í nágrenni þess kippa sér lítt upp við það, þótt hún láti á sér kræla.

Flugvellinum lokað en allir pollrólegir

Flugvellinum í Catania-héraði var þó lokað vegna öskufalls í gærkvöld. Jóhanna Thorsteinsson kennari er í jólafríi í Catania, en hún bjóst þó ekki við hátíðareldgosi þegar hún sat úti og borðaði kvöldverð á veitingastað með vinkonu sinni. 

„Þá ég tek eftir þessu einkennilega hvíta skýi, sem stækkar óðum og er alltaf að breyta um form,“ segir Jóhanna. „Fyrst hélt ég að þetta væri dæmigert gos með miklum vökva eða vatni. Það er reyndar ekki mikill snjór á Etnu. Nema hvað ég sé að það fer að falla úr skýjunum dökkt efni. Allt í lagi, hugsa ég. Annaðhvort er þetta eldgos eða rigning. Og með það héldum við áfram að borða matinn okkar. Það hreyfði sig ekki nokkur lifandi maður. Verslunin hélt áfram á basarnum, seðlar skiptu um hendur, það leit ekki nokkur maður upp og enginn hafði áhyggjur.“

Ekkert heilagt fyrr en kl. 23 

Hvernig er jólastemningin á Sikiley?

„Sikiley er náttúrulega rammkaþólskt land. Mér fannst mjög einkennilegt að sjá fólk versla hérna langt fram eftir. Hér hafa markaðir verið opnir síðan við komum út 20. desember og fólk stendur við markaðina sína alveg fram yfir kvöldmat. Það var allt í fullum gangi til klukkan sjö í gærkvöld. Það verður ekkert heilagt hér fyrir en klukkan 11 á aðfangadagskvöld. Svo er jóladagur alveg heilagur. Það er ekkert um að vera hérna í dag.“