Formaður Eflingar segir að með útboðum á ræstingum sé verið að keyra laun fólks niður fyrir botninn. 12 Pólverjar, sem starfa hjá ræstingafyrirtæki á Landspítalanum í Fossvogi, fá 214 þúsund í mánaðarlaun. Efling segir að bæði kjörum og aðbúnaði þeirra sé verulega ábótavant.
Pólverjarnir hafa ekki náð tökum á íslensku en bæði kjarasamningur þeirra og launaseðlar eru á íslensku.
Þeim er gert að ræsta 26 þúsund fermetra svæði á Landspítalanum sem 35 félagsmenn Eflingar sinntu áður. Þeir hafa kvartað undan miklu álagi og kröfum um stöðugt aukna vinnu fyrir lægra kaup. Efling hefur sent ræstingarfyrirtækinu bréf þar sem bent er á að fjölmörg atriði sem tengjast kjörum og aðbúnaði sé verulega ábótavant. Skorað er á fyrirtækið að fara eftir ákvæðum laga og kjarasamninga.
Sigurður Bessason formaður Eflingar segir ljóst að brotið sé á starfsmönnum á fjölmörgum sviðum. „Upphaf vinnudagsins er með mismunandi hætti sem er algjörlega á skjön við kjarasamninga. Vinnuframlag er mismundi milli mánuða, kaffitímar eru ekki með réttmætum hætti sem er líka á skjön við kjarasamninga. Og í ofan á lag eru þessir starfsmenn með 214 þúsund krónur á mánuði í heildarlaun.“
Nokkur önnur atriði eru talin upp í bréfinu meðal annars að að bæði kjarasamningar og launaseðlar eru á íslensku. Í gögnum Eflingar kemur fram að 73 prósent félagsmanna sem starfa við ræstingar eru með dagvinnulaun undir 250 þúsund krónum.
Ræstingarfólki fækkað um 300 frá árinu 2008
Það virðist vera freistandi fyrir ríkið að bjóða út ræstingar því frá 2008 hefur ræstingarfólki, eftir að útboðin byrjuðu, fækkað úr 700 í 400 eða um 300 samtals. 2009 þegar Ríkiskaup byrjuðu að bjóða út ræstingar lagði Starfsgreinasambandi áherslu á að í útboðsgöngum kæmi skýrt fram að farið yrði eftir kjarasamningum í einu og öllu. Efling hefur marg ítrekað þetta og meðal annars bent á að útboðsupphæðir dygdu engan veginn fyrir því að greiða starfsmönnum lögbundin laun.
Sigurður Bessason segir að margsinnis hafa verið fundað með Ríkiskaupum og ráðherra þessara mála. Ávallt hafi því verið tekið vel að ákvæði um lögbundin laun væru sett í útboðsgögn. „Efndirnar hafa hins vegar verið þveröfugar. Þegar aðeins er gert ráð fyrir tilteknum fermetrumi í útboðsgögnum sem á að þrífa er freistandi að bjóða lágt og ná því til baka í launakjörunum.“
Sigurður segir að Landspítalinn sé ágætis dæmi um að miðað við útboðsupphæðir sé ekki hægt að vinna verkið með því að greiða lögbundin laun.
„Það er bara verið að keyra kjör fólks algjörlega niður fyrir botninn.“