Leikstjórinn og framleiðandinn Bjarni Haukur Þórsson og sænskt framleiðslufyrirtæki hans, Thorsson Produktion AB, hefur keypt kvikmynda- og sjónvarpsréttinn að bókum Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu Ketilsdóttur.

Bjarni segir í viðtali við Síðdegisútvarpið að verkefnið sé mjög stórt. „Jú það gæti orðið það, en ég er búinn að vera að leita að stærra verkefni í nokkur ár.“ Hann hafi lengi verið mikill aðdáandi Vilborgar og ekki síst þríleiknum um Auði djúpúðgu. „Þegar ég fór að ræða þetta við hana þá náði ég að sannfæra hana. Ætlunin er að gera alþjóðlega sjónvarpsseríu byggða á bókunum, sem verður tekin upp á Írland, Skotlandi og Íslandi, þar sem sögurnar gerast.“

Bækurnar Auður, Vígroði og Blóðug jörð hafa selst vel á Íslandi undanfarin ár og sú fyrsta var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Bjarni segir að kvenlægi vinkillinn í sögunum sé lykilatriði. „Hér er um víkingaseríu að ræða þar sem sagan er sögð út frá sjónarhóli konu. Það hafa verið gerðar svo margar víkingaseríur um karla, nú er komið að því að gera þetta út frá konunni.“

Hann getur ekki svarað hvar þættirnir verða sýndir en segist vera í viðræðum ýmsa um sýningarréttinn. „Það kemur allt í ljós. En eðlilega þegar um svona stórt verkefni er að ræða, þá þurfa fleiri að koma að málinu.“ Hvenær geta áhorfendur þá búist við að berja herlegheitin augum? „Ég get í raun ekkert sagt um það á þessu stigi málsins. En þetta eru stórkostlegar sögur og eiga sér marga aðdáendur.“ Bjarni segir efni sagnanna mjög myndrænt og það sé margt í þeim sem eigi erindi við samtímann. „Þó að þær eigi að gerast fyrir 1100 árum síðar, þá er margt af því sem þarna er í gangi erum við sem samfélag ennþá að kljást við, til dæmis kúgun kvenna, átök vegna ólíkra trúarbragða og stríð sem veldur því að fólk þarf að flýja heimili sín,“ segir Bjarni að lokum.

Rætt var við Bjarna Hauk Þórsson í Síðdegisútvarpinu.