Auðlindagjald er enn of hátt að mati framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem segir að horfa þurfi heildstætt á það hvernig eigi að tryggja samkeppnishæfni greinarinnar sem keppi á kröfuhörðum alþjóðlegum markaði.

Sjávarútvegsráðherra kynnti í gær frumvarp sitt um veiðigjöld. Meðal breytinga er að úrvinnsla veiðigjalda færist til skattyfirvalda og gjaldheimtan færist nær þeim tíma sem aflinn er veiddur. Auk þess þurfa fiskvinnslur ekki að greiða gjaldið. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að auðlindagjaldið sé enn of hátt. Skoða þurfi hvernig eigi að tryggja samkeppnishæfni sjávarútvegsins sem keppi á alþjóðlegum markaði.

„Þar erum við , eins og ég hef áður sagt, líklega með heimsmet í gjaldtöku á atvinnugreininni. Við þurfum kannski ekki annað en að horfa bara til frétta liðinna vikna. Það breytir ekki hvort það er flug eða fiskur. Það verður að tryggja hér góð rekstrarskilyrði fyrir útflutningsgreinarnar þannig að þær geti lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að tryggja hér heilbrigðan hagvöxt,“ sagði Heiðrún Lind í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsfyrirtækja koma reglulega upp í umræðunni um auðlindagjald og rekstur fyrirtækjanna. Þær hafa verið tugir milljarða á undanförnum árum. Heiðrún Lind segir að ekki þýði að horfa aðeins á krónutöluna. „ Ef við berum til dæmis saman arðgreiðslur í sjávarútvegi og atvinnulífinu almennt þá hafa þær verið þriðjungi lægri. Atvinnulífið hefur verið að greiða sér um 31 prósenta hagnað en sjávarútvegur um 21 til 22 prósent að meðaltali frá árinu 2010.“ Heiðrún benti á að þeir sem fjárfesti í sjávarútvegi geri kröfu um ákveðna ávöxtun. Þar á meðal séu lífeyrissjóðirnir. Ef arður af fjárfestingu í sjávarútvegi er minni en í öðrum atvinnugreinum komi það niður á greininni því að fjárfestar leiti annað.